Styrkleikarnir voru haldnir í fyrsta sinn á Íslandi árið 2022 og var Krabbameinsfélag Árnessýslu gestgjafar leikanna sem haldnir voru á Selfossi.
Styrkleikarnir eru íslenskt heiti á alþjóðlegum viðburði sem kallast Relay for life og haldinn er í 34 löndum víðsvegar um heiminn. Markmið viðburðarins er þrennskonar, að fagna lífinu, að minnast og sameinast í sorginni og að berjast saman gegn krabbameini. Þessi markmið fanga upplifun viðburðarins þar sem saman koma fjölskyldur, vinir, einstakingar sem hafa sigrast á krabbameini, einstaklingar sem eru í baráttunni við krabbamein og allir sameinast á kröftugan hátt fyrir málstaðinn.
Viðburðurinn snýr að því að lið skrá sig til leiks og í sameiningu halda liðin bohlaupskefli á hreyfingu í sólarhring á táknrænan hátt líkt og sá sem berst við krabbamein gerir það allan sólarhringinn. Boðhlaupskeflinu er haldið á hreyfingu með þeim hætti sem hentar hverjum og einum þátttakenda. Allir sameinast í kraftinum sem felst í að sýna samstöðu og vinna saman að því sýna stuðning og baráttuvilja. Ýmsis afþreying og skemmtun er í gangi yfir sólarhringinn sem ætti að höfða til allra aldurshópa. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í undirbúningi og framkvæmd leikanna og setja sinn einstaka svip á upplifun þátttakenda.
Styrkleikarnir verða haldnir í Lindex-höllinni á Selfossi 29.-30.apríl næstkomandi og er skráning hafin á heimasíðunni www.styrkleikarnir.is
Starfsmannahópnum, vinaópum eða hverskonar hópum sem hafa áhuga á að taka þátt býðst að fá kynningu á viðburðinum og sendast beiðnir varðandi það á netfangið arnessysla@krabb.is eða í síma 892-3171. Einnig ef áhugi er fyrir hendi að starfa sem sjálfboðaliði á viðburðinum eða einhverjar spurningar vakna, þá hvetjum við ykkur til að hafa samband.
Hlökkum til að upplifa magnaðan sólarhring með ykkur!
F.h undirbúningsnefndar Styrkleikanna
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu