Sunnudaginn 21. október renndu glaðbeittir meðlimir Selsins úr hlaði frá félagsmiðstöðinni Zelsíuz í sína árlegu jeppaferð í boði Suðurlandsdeildar ferðaklúbbs 4×4.
Selurinn er félagsstarf fyrir fatlaða á Selfossi en meðlimir hans hittast tvisvar sinnum í viku undir handleiðslu starfsmanna félagsmiðstöðvarinnar. Dagskráin í Selnum er fjölbreytt en stærsta stundin ár hvert er þessi ævintýraferð sem Suðurlandsdeildin stendur allan straum af. Jeppaferðin er löngu orðin fastur liður í dagskrá Selsins enda var þetta sennilega tíunda árið í röð sem Suðurlandsdeildin býður í hana.
Lagt var í hann á sjö jeppum í fallegu haustveðri frá Selfossi í áttina að Hellisheiði en á leiðinni skiptust meðlimir Selsins á að rabba í talstöðvar við mikinn fögnuð. Þegar komið var upp Kambana byrjaði að snjóa lítillega og er ekki laust við að náttúran hafi ákveðið að blása til veislu Selnum til heiðurs. Því ævintýrafarar fengu öll hin íslensku veðraafbrigði – sól, snjó, rigningu, slyddu og él.
Óku félagar Suðurlandsdeildarinnar hina svokölluðu Þúsundvatnaleið við Innstadal. Á leiðinni brunuðu jepparnir yfir ár og læki og uppskáru mikil hlátrasköll ferðafélaga þegar gusugangurinn gekk yfir bílana. Ekið var alla leiðina að Hellisheiðarvirkjun þar sem hópurinn fékk skemmtilega skoðunarferð um virkjunina. Að henni lokinni grilluðu jeppakallarnir pylsur sem runnu ljúft ofan í alla áður en haldið var heim á leið.
Ferðin tókst vel og voru allir mjög ánægðir við heimkomuna á Selfoss.
Meðlimir Selsins kunna Suðurlandsdeild ferðaklúbbs 4×4 bestu þakkir fyrir þetta rausnarlega boð. Sjáumst að ári.
Allir spenntir við upphaf ferðar. Ljósmynd/Aðsend
Ekin var hin svokallaða Þúsundvatnaleið. Ljósmynd/Aðsend