Sumar á Selfossi: Þúsund þakkir

Nú þegar bæjarhátíðin Sumar á Selfossi er að baki viljum við í undirbúningsnefnd þakka hverjum og einum fyrir frábærar viðtökur og þátttöku.

Styrktaraðilum eins og Guðnabakaríi, MS, Krás, HP kökugerð, Bónus, Samkaup, Lýsi og Europris þökkum við enn og aftur fyrir að bjóða til morgunverðar, án þeirra framlags yrði morgunkosturinn rýr. Flytjandi og sveitarfélagið studdu hátíðina einnig dyggilega og Guðmundur Tyrfingsson bauð upp á glæsilega flugeldasýningu.

SET fær rós í hnappagatið fyrir að bjóða á dansleik með Ragga Bjarna, Þorgeir Ástvalds og Þorvaldi Halldórssyni – stemmingin var ólýsanleg frá fyrstu mínútu.

Öðrum styrktaraðilum viljum við þakka enn og aftur fyrir að styðja svona vel við bakið á hátíðinni og ógjörningur að segja til um það hvernig hún væri ef þeirra nyti ekki við.

Svo er það nú þannig að maður er manns gaman og Selfossbúar og aðrir gestir settu síðan punktinn yfir i-ið með frumlegum og flottum skreytingum út um allan bæ og þátttöku í hátíðarhöldunum sjálfum. Takk fyrir það.

Í lokin er svo kannski ekki úr vegi að þakka veðurguðunum fyrir þeirra framlag sem átti stóran þátt í því hvernig til tókst.

Við vonum að allir hafi skemmt sér eins vel og við gerðum og hlökkum til að sjá ykkur á næsta ári.

Einar Karl Þórhallsson, Már Ingólfur Másson og Þórunn Björk Pálmadóttir.

Fyrri greinÁrborg fékk stig í hörkuleik
Næsta greinAldamótahátíðin hefst á föstudag