Sunnlendinga þyrstir í tónlistarnám

Nú er að hefjast nýtt skólaár í starfi Tónsmiðju Suðurlands.

Fyrirtækið hefur verið starfrækt frá árinu 2004 og að eftirspurninni að dæma er ljóst að sunnlendinga þyrstir í tónlistarnám og eru ánægðir með að hafa val um fleiri en eina námsleið að settu marki.

Sveitarfélagið Árborg, Ásahreppur, Rangárþing eystra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafa undanfarin tvö ár verið í samstarfi við Tónsmiðju Suðurlands og þar með gefið sínum þegnum tækifæri til að velja á milli námsleiða. Önnur sveitarfélög hafa ekki enn tekið þetta skref.

Í ár mun Tónsmiðja Suðurlands bjóða upp á nokkur ný námskeið. Tilurð þessara námskeiða byggir á óskum nemenda og annarra er áhuga hafa á tónlist.

Barnakór Tónsmiðjunnar
Í haust mun verða starfræktur barnakór fyrir börn 5-8 ára. Æft verður á laugardagsmorgnum kl. 11:00-11:55 og byrjar starfið 4. september nk. Efnisskráin mun samanstanda af barnvænum lögum og hreyfisöngvum er örva sönggleði og hvetja þátttakendur til aukinnar tónlistariðkunnar. Að sjálfsögðu mun námskeiðið enda með tónleikum. Stjórnendur eru Ingibjörg Erlingsdóttir og Stefán Þorleifsson.

Blandaður kór fyrir fólk á öllum aldri
Vegna fjölda fyrirspurna hefur verið ákveðið að stofna nýjan kór fyrir fólk á öllum aldri. Um er að ræða blandaðan kór kynja SATB og eru allir velkomnir. Efnisskráin samanstendur af kórtónlist úr ýmsum áttum, klassísk sem og rytmísk, a-capella og með undirleik. Stjórnandi er Stefán Þorleifsson og veitir hann nánari upplýsingar í s. 615-2920.

Samspil (bassi, gítar, hljómborð, trommur & söngur, o.fl. tilfallandi hljóðfæri)
Að loknum vel heppnuðum nemendatónleikum í lok síðasta skólaárs, voru kennarar, nemendur og aðstandendur sammála því að næsta skref Tónsmiðjunnar væri aukið samspil. Nemendur Tónsmiðjunnar munu fá aukið samspil í sínu námi en einnig verður boðið upp á það sérstaklega fyrir einstaklinga og/eða hljómsveitir. Kennarar eru Stefán Þorleifsson og Örn Eldjárn.

Af ofangreindu er ljóst að það verður sama stuðið í Tónsmiðju Suðurlands á komandi önn sem og endranær. Skráning í námskeiðin er hafin.

Með brosi á vör
Ingibjörg Erlingsdóttir og Stefán Þorleifsson

Fyrri greinHænsnaskíturinn gaf góða raun
Næsta greinSluppu með skrekkinn úr bílveltu