Undanfarnar vikur hafa verið erfiðar fyrir starfsfólk og íbúa Árborgar. Umfjöllunin hefur verið neikvæð með afbrigðum og hefur verið erfitt að sitja á sér og stíga ekki inn í umræðuna. Umfjöllunin hin síendurtekna er sú að Sveitarfélagið Árborg sé á hausnum.
Umfjöllunin er röng
Fyrir það fyrsta er eignastaða sveitarfélagsins góð. Þó að í ársreikningi komi fram að sveitarfélagið Árborg skuldi um 28 milljarða króna þá eru eignir mun nærri 100 milljörðum króna. Eignir sveitarfélagsins eru taldar fram með varfærnum hætti og er miðað við bókfært virði fremur en raunvirði eða markaðsvirði. Undirritaður ætlar ekki að lista upp útreikninga sína á markaðsvirði eigna sveitarfélagsins en þetta er niðurstaða skoðunar.
Endurtekning á rangri umfjöllun eykur á vandræði í rekstri
Vissulega eru erfiðleikar í rekstri sveitarfélagsins Árborgar og er bæjarstjórn í heild sinn að taka á málinu. Allir bæjarstjórnarmenn hafa tekið þátt í vinnunni við endurskipulagningu á rekstri Árborgar og bera jafna ábyrgð. Enginn hefur ákveðið að hlaupa útundan sér og skora pólitísk stig sjálfum sér til handa á kostnað bæjarbúa og sveitarfélagsins. Af þeim sökum hafa skipulagsbreytingar og aðhaldsaðgerðir náð fram að ganga í sátt því einhugur er að baki. Við höfum tekið ábyrgð á vandamálinu, einangrað það og leyst af kostgæfni með aðstoð starfsmanna sveitarfélagsins og utanaðkomandi ráðgjafa.
Þegar þessar aðgerðir eru að baki og ljóst að tekið hefur verið til í rekstri sveitarfélagsins þá þarf að endurfjármagna sveitarfélagið til komandi ára. Lausafjárstaða sveitarfélagsins er bágborin og þarf að bregðast við því. Við munum ekki endurfjármagna sveitarfélagið með stöðuga neikvæða umfjöllun á vörum okkar. Tölum af jákvæðni, bjartsýni og af stolti um sveitarfélagið Árborg því við eigum allt undir.
Arnar Freyr Ólafsson
Oddviti Framsóknar í Árborg