Það var mikill heiður fyrir mig að fá brautargengi í bæjarstjórn Svf. Árborgar fyrir fjórum árum síðan. Að fá að takast á við það verkefni að umbreyta sveitarfélaginu í eftirsóttasta sveitarfélag landsins til búsetu og búa það undir framtíðina var bæði krefjandi og mjög gefandi verkefni.
Það gerðust ótrúlegir hlutir í Árborg á kjörtímabilinu sem nú er lokið og íbúafjöldinn jókst um 22%, úr níu í ellefu þúsund. Of langt mál væri að telja allt upp hér sem unnið var en ég leyfi mér samt sem áður að nefna hér nokkur dæmi um þau framfaramál sem hafinn var undirbúningur að, eru í framkvæmd eða er nú þegar lokið:
- Selfosshöllin, fjölnota íþróttahús tekið í notkun auk þess sem á íþróttasvæðinu við Engjaveg var lagt nýtt gervigras og lokið við að malbika bílastæði
- Frístundamiðstöð, 1. áfangi boðin út og fer hún í framkvæmd í sumar
- 18 holu golfvöllur við Svarfhólsvöll er í framkvæmd á vegum GOS með stuðningi sveitarfélagsins
- Menningarsalurinn, forhönnun lokið og tæplega 300mkr styrkur er í hendi frá ríkinu til að ljúka framkvæmdinni
- Stekkjaskóli kominn í starfsemi í færanlegum kennslustofum, 1. áfangi er í byggingu og verður afhentur sveitarfélaginu í haust, 2. áfangi er á leið í útboð
- Goðheimar, 6 deilda leikskóli kominn í notkun
- Færanlegar kennslustofur eru í smíðum fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka
- Fjölskyldugarður við Gráhellu tekinn í notkun
- Undirbúningur hafinn að byggingu auka sex deilda við leikskólann Jötunheima
- Undirbúningur hafinn að byggingu kennslusundlaugar
- Íbúðakjarni fyrir fatlaða í Nauthaga er að komast á framkvæmdastig
- Hreinsistöð fráveitu fer í framkvæmd í sumar eftir ríflega 40 ára undirbúning
- Unnið að gerð framkvæmdaáætlunar um að koma fráveitu á Stokkseyri og Eyrarbakka í viðunandi horf
- Aðaldælustöð hitaveitu við Austurveg 67 tekin í notkun
- Snjallmælavæðing hitaveitu er í gangi
- Aukinn kraftur var settur í orkuöflun
- Nýr 4800m3 miðlunargeymir hitaveitu boðinn út og fer í framkvæmd á næstu vikum
- Stekkjahverfi í Björkustykki, fyrsta áfanga gatnagerðar af fjórum lokið, annar og þriðji áfangi eru í framkvæmd
- Fleiri tugir kílómetra af göngu-, hjóla- og reiðstígum lagðir
- Lokið var við fjörustíginn á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
- Áframhald var á endurnýjunarverkefnum á götum og gangstéttum í öllu sveitarfélaginu og gönguleiðir skólabarna gerðar öruggari með aukinni lýsingu og ýmsum öðrum aðgerðum
- Suðurhólar framlengdir að Gaulverjabæjarvegi svo nú er hringakstur mögulegur um Selfoss
Auk fjölmargra ýmissa annarra verkefna sem lokið var við á vegum sveitarfélagsins og í samstarfi við ríkið og einkaaðila. Stjórnsýslan var svo færð til nútímans og er nú orðin ein sú fremsta á landinu í samanburði við önnur sveitarfélög.
Það ætti flestum að vera ljóst að sveitarfélagið er nú vel undirbúið til að takast á við framtíðina og að ný bæjarstjórn tekur við góðu búi. Það eru krefjandi en jafnframt spennandi tímar framundan, kastljósið hefur verið kveikt, ljósið logar og nú er það nýrrar bæjarstjórnar að viðhalda bjarmanum sem mun lýsa upp sveitarfélagið til framtíðar. Ég óska nýrri bæjarstjórn til hamingju með kjörið og velfarnaðar í störfum sínum.
Kæru íbúar, ég þakka traustið sem mér var sýnt fyrir fjórum árum og um leið óska ég ykkur til hamingju með Nýju Árborg, leyfum henni áfram að vaxa og dafna. Takk fyrir mig!
Tómas Ellert Tómasson,
hamingjusamur, glaður og frjáls íbúi í Svf. Árborg