Kæra samferðafólk og íbúar í Rangárþingi eystra! Í vikunni var kveikt á jólatré Landsbankans (miðbæjarjólatrénu) hérna á Hvolsvelli við hátíðlega stund í blíðskaparveðri.
Venjulega er, að mínu mati, aðdragandi jólanna og aðventutíminn einn besti tími ársins. Ég veit að þar eru mér margir sammála og ekki síst börnin.
Í aðdraganda jóla er nauðsynlegt að leiða hugann að öllum þeim sem af einhverjum ástæðum eiga um sárt að binda og upplifa sorg og harm í stað gleði og friðar á hátíð ljóssins.
Flestir eru sammála um að besta jólagjöfin sem þeir hafi fengið hafi verið þegar þeir gátu gefið af sér til þeirra sem minna máttu sín, glatt döpur hjörtu, lagt fátækum lið, beðið fyrir eða hjálpað veikum. Það er einmitt þetta sem jólin snúast um. Jólin eru ljós og kærleikur. Jólin eru besti tíminn til þess að gera góðverk, biðja fyrir náunganum og sjálfum sér, og hjálpa öllum þeim sem þess þurfa. Bænin er sterk allan ársins hring, en í kring um jól er hún samt sérstaklegea sterk vegna þess hvernig andrúmsloftið er, allir eru móttækilegir og farvegur bænarinnar er greiðfærari, vegna þess að almenningur er jákvæðari.
Nýtum þessar aðstæður, látum okkur líða vel og gerum góðverk. Hjálpum til þar sem þörf er á, biðjum fyrir sjúkum og þeim sem eiga bágt, tökum utan um vini okkar, látum kærleikann flæða hindrunarlaust um brjóst okkar og framkvæmum það góða sem þar býr. Það þarf ekki alltaf að vera stórt, og jafnvel því minna sem okkur finnst það vera því áhrifaríkara er það.
Góðar heimsóknir þar sem fólk gefur sér tíma til að stoppa og spjalla og síðast en ekki síst að hlusta er betri heldur en nokkur keypt gjöf. Þetta er það sem jólin snúast um kærleikur, að allir séu vinir og að við getum lagt öðrum lið. Láttu verða af því um þessi jól að gera eitthvað gott sem býr í brjósti þér og finndu jólin í hjarta þínu því þar eru jólin.
Á jólum birtir í sálum okkar og við leiðum hugann að hinum sönnu verðmætum í lífinu. Þá erum við minnug þess að við búum í hættulegum heimi þar sem glæpir og illvirki setja víða mark á mannlífið. En við megum ekki láta bugast af bölsýni. Ef við trúum ekki á hið góða í manninum er allt okkar starf unnið fyrir gýg. Baráttan við ill öfl er stöðug og verður okkur ætíð umhugsunarefni og víða virðist vera almennur skortur á umburðarlyndi í garð annarra. Öfgar fá þrifist í nafni kreddu og kennisetninga og ýmis vafasöm sjónarmið sem fela í sér takmarkað umburðarlyndi eru sett fram á grundvelli siðferðilegra gilda.
Við þessar aðstæður þurfum við að spyrja okkur hver eru okkar helstu siðferðilegu gildi? Er það staðreynd að umburðalyndi sé á undanhaldi? Hvernig er unnt að snúa þeirri þróun við? Ég á ekki svar við þeirri spurningu, en leitin að hinu góða er það eina sem við getum haldið í. Eitt fullyrði ég. Við finnum ekki lausnina án umburðarlyndis, án málamiðlana, án skilnings á sjónarmiðum annarra, umfram allt virðingu fyrir því æðsta sem við eigum, lífinu sjálfu.
Aðalatriðið er að trúin á hið góða veiti okkur leiðsögn og villuljósin hreki okkur ekki af leið.
Náungakærleikur er ekki sprottinn frá ríkisvaldinu, heldur lifir hann í hjörtum fólksins í landinu. Engin skoðun eða stjórnmálastefna getur leyst af hólmi eða komið í staðinn fyrir hinar kristilegu dyggðir eða persónulega trúarsannfæringu.
Það er þetta ljós sem er sigurinn yfir myrkrinu. Það er í þessu ljósi sem friðurinn finnst. Það er í þessu ljósi sem við finnum betra líf. Það er við þennan bjarma sem við getum bætt okkur sjálf og aðra. Því má það ljós aldrei slokkna
Það að tilheyra samfélagi eins og Rangárþingi eystra ætti að vera eftirsóknarvert. Lítið samheldið samfélag á landsbyggðinni þar sem samhugur í garð samferðamanna okkar og náungakærleikur er í hávegum hafður. Samfélag sem gefur af sér. Hvort sem það er að senda lítinn pakka í verkefnið Jól í skókassa, synda áheitasund eða hlaupa maraþon til styrktar góðu málefni eða ganga í hús og safna framlögum til góðgerðamála. Ganga í björgunarsveitina, kvenfélagið eða hvað sem er. Allt eru þetta göfug og góð verkefni sem eru samfélögum svo ómetanleg.
Hátíðin sem senn gengur í garð og aðventan sjálf, eru tími samverustunda. Okkur þykir gaman að vera saman, hitta fólkið okkar. Finna innri frið og deila gleðinni með okkar nánustu – fjölskyldu og vinum. Það er á þessum tíma sem við fyllumst þakklæti fyrir það að eiga að okkar náustu. En alveg eins og jólin geta verið besti tími ársins þá er hann fyrir suma sá alversti. Það eru því miður margir sem eru fjarri ástvinum sínum í jólamánuðunum og orna sér við góðar minningar. Það eru líka margir sem að einhverjum ástæðum hugsa til jólanna með kvíðboga í hjarta.
Að það skuli vera straðreynd að í þessu litla samfélagi sem við búum í skuli vera komin upp sú staða að einum af okkar samferðamanni sé úthýst úr samfélaginu er hreint og beint óþolandi og ólíðandi. Er það virkilega það sem við viljum standa fyrir? Er það í alvörunni eitthvað sem þú/þið viljið að komi fyrir ykkar nánustu ættingja að þurfa að horfast í augu við.
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Vitið þið hvað þetta vers er kallað? Já, Gullna reglan og við hér í Rangárþingi eystra ættum að taka þessa reglu mjög alvarlega. Til að okkur geti öllum liðið vel hér þá er svo mikilvægt að við komum vel fram við hvert annað. Að við sýnum hvert öðru kærleika og hjálpsemi og komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.
Náungakærleikur, umhyggja og nærgætni ætti að vera ofarlega í huga okkar allra. Sérstaklega á þessum tíma, þegar einhverjir eiga um sárt að binda. Brosum hvort til annars, gefum klapp á bakið og veitum faðmlag þeim sem þurfa og umfram allt leggjum ekki samferðafólk okkar í einelti. Sýnum samhug og stuðning og sameinumst um að Tryggvi Ingólfsson geti flutt aftur í faðm fjölskyldunnar á Hvolsvelli.
Ég gæti ekki hugsað mér stærri jólagjöf fyrir samfélagið á Hvolsvelli en að sættir næðust í þessu máli sem erfitt hefur verið að horfa upp á. Umgöngumst hvert annað af virðingu það er eina leiðin til að ná sáttum ef það er í boði.
Ágæta samferðafólk ég óska ykkur öllum friðar og góðrar aðventu.
Svandís Þórhallsdóttir.