Ég er uppalin á Akranesi. Það hefur lengi verið talinn mikill íþróttabær og er vel hlúið að íþróttahreyfingunni þar af hálfu bæjaryfirvalda.
Þar starfaði ég sem fimleikaþjálfari í átta ár. Árið 2007 flutti ég á Stokkseyri, þá gafst mér tækifæri á að stofna fimleikadeild ásamt Ungmennafélagi Stokkseyrar. Þetta var spennandi verkefni – að fá að byggja upp skemmtilega íþróttahreyfingu í þessu litla samfélagi sem Stokkseyri er.
Þegar ég sá íþróttahúsið fyrst var mér brugðið – en þó var ég full bjartsýni. Fimleikastarfið fór vel af stað. Ég náði að safna áhöldum frá Fimleikafélagi Akraness, Laugardalshöllinni og Fimleikafélaginu Ármanni – allt notuð og úr sér gengin áhöld, en það var vel hægt að nota þau. Iðkendurnir urðu strax um 45 talsins og var mikill áhugi fyrir starfinu.
Árið 2010 keyptum við gamla loftdýnu frá Umf. Aftureldingu og árið 2011 fengum við gömlu fíberbrautina frá fimleikadeild Umf. Selfoss gefins frá Sveitarfélaginu Árborg. Þvílík hamingja sem fylgdi því og voru börnin með stjörnur í augunum. Það er Sveitafélaginu Árborg að þakka að við fengum gömlu fíberbrautina í okkar hendur, og erum við ævinlega þakklát fyrir þá gjöf.
Veturinn 2011 voru sjötíu börn skráð í fimleika hjá Ungmennafélagi Stokkseyrar, og eru þau búsett á Stokkseyri, Eyrarbakka og í nærsveitum. Það er því óhætt að segja að það sé mikil gróska hjá litlu fimleikadeildinni okkar. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um íþróttahúsið okkar sem er í algjörri niðurníslu. Öll þau ár sem ég hef starfað í húsinu hefur ekki mátt rigna án þess að þakið í salnum leki, og nú er lekinn farinn að berast úr veggjunum. Í síðustu viku var t.d. farið að dropa heilmikið úr einum hurðarkarminum.
Gólfið er steypt og ofan á það hefur verið lagt parket. Ég fæ sting í hjartað í hvert skipti sem börnin koma til mín og kvarta undan verkjum í fótum og að það sé vont að hlaupa á gólfinu. Börn frá átta ára aldri hafa meira að segja verið að kvarta undan beinhimnubólgu.
Húsið, sem er gamalt iðnaðarhúsnæði, er 230m2 að stærð, þar af er geymslupláss um 30m2. Sökum þess hversu lítið geymsluplássið er þarf að geyma ýmis áhöld á öðrum stöðum og má þar nefna borðtennisborð sem geymt er inni á klósetti sem ætlað er einstaklingum í hjólastól, fimleikahesturinn er geymdur í anddyri hússins og er hann staðsettur fyrir framan einu brunavarnir hússins. Borð í eigu ungmennafélagsins eru geymd úti í ryðguðum gámi, og eru þau öll með tölu orðin ónýt vegna myglu og kulda. Um 150 stólar eru geymdir á gangi hússins, og eru þeir staðsettir beint fyrir framan búningsklefana. Einnig eru miklar rakaskemmdir í húsinu sökum fyrrnefnds leka.
Í íþróttahúsinu stunda um eitthundrað börn skólaíþróttir, sjötíu börn fimleika, þrjátíu einstaklingar stunda taekwondo og ketilbjöllur og þarna eru iðulega haldnar veislur og aðrar samkomur fyrir allt að 150 manns.
Nú er á dagskrá hjá sveitarfélaginu að skipta um þak á húsnæðinu. Inni á fimm ára plani bæjarstjórnarinnar er svo að byggja nýtt íþróttahús hér á Stokkseyri. Væri ekki nær að hefjast strax handa við byggingu á nýju íþróttahúsi í stað þess að vera að eyða fjármunum í ónýtt húsnæði? Sveitarfélaginu hefur tekist að byggja upp stórgóð íþróttamannvirki á Selfossi og stuðla þannig að frábæru íþróttastarfi þar í bæ. Það verk sem þau hafa unnið þar er til fyrirmyndar og eiga þau heiður skilið fyrir þá uppbyggingu. Að sama skapi ætti sveitarfélagið að skammast sín fyrir aðstöðuna sem það býður okkur Stokkseyringum og nærsveitungum upp á og langvarandi aðgerðarleysi þeirra í endurbótum á því.
Ég vil fá að nota tækifærið og minna á það sem stendur í stefnuskrá Árborgar um íþrótta- og tómstundamál, en þar stendur meðal annars:
• Að markmið sveitarfélagsins með íþrótta- og tómstundastarfi sé að gæta jafnréttis í hvívetna og veita öllum tækifæri til að eflast og þroskast á eigin forsendum, óháð efnahag, búsetu, aldri eða stöðu að öðru leyti.
• Að skapa sveitarfélaginu jákvæða ímynd og gera það enn eftirsóknarverðara til búsetu.
• Að börn og unglingar kynnist mörgum íþróttagreinum og fái þannig tækifæri til að velja þá grein sem þeim best hentar.
• Að bæta aðstöðu fyrir hverskonar almenningsíþróttaiðkun og auka fjölbreytni.
• Að tryggja eldri borgurum greiðan aðgang að íþróttamannvirkjum.
Svo virðist sem að Stokkseyri og Eyrarbakki flokkist ekki undir þessa annars ágætu stefnuskrá, og veit ég fyrir víst að íbúar þorpanna, bæði ungir sem aldnir, vilja sjá breytingar þar á.
Mér er mjög annt um það starf sem Ungmennafélag Stokkseyrar er að reyna að byggja upp af bestu getu og vona ég innilega að mál okkar sé komið ögn hærra í forgangsröðun sveitarfélagsins.
Virðingarfyllst,
Tinna Björg Kristinsdóttir,
tveggja barna móðir, íþrótta- og heilsufræðingur að mennt og yfirþjálfari fimleikadeildar Ungmennafélags Stokkseyrar.
Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í og við íþróttahúsið þann 13. september sl.