Tómas Ellert: Hvar eru strætóskýlin í Árborg?

Síðastliðið sunnudagskvöld var ég á heimleið af fjörugum knattspyrnuleik í Kópavogi, með í för voru tveir sparkspekingar og glöggur bílstjóri.

Eftir mis vitrænar samræður spekinganna um leikinn, barst talið að almenningsferðum. Í þeim samræðum var meðal annars rætt um hvernig staðið hefur verið að málum almenningsferða á Suðurlandi í gegnum tíðina og einnig um núverandi leiðarkerfi.

Bílstjórinn glöggi hafði haft hægt um sig á meðan spjallið um boltasparkið fór fram. En þegar við spekingarnir vorum um það bil að klára talið um strætó, þá tók bílstjórinn orðið og benti okkur á að það væru engin strætóskýli í Árborg. Bílstjórinn sagðist vorkenna því fólki sem ferðast með strætó og þá sérstaklega yfir vetrartímann. Sá glöggi sagðist ekkert skilja í því að farþegum væri ætlað að bíða og standa úti óvarðir fyrir vályndri íslenskri veðráttu.

Ég þakkaði þeim glögga kærlega fyrir ábendinguna og lofaði að koma þessum skilaboðum áfram til þeirra er málið varðaði. Því hef ég nú þegar óskað eftir því að málið verði tekið upp í Framkvæmda- og veitustjórn.

Tómas Ellert Tómasson,
nefndarmaður í Framkvæmda- og veitustjórn

Fyrri greinLárus í þriggja leikja bann
Næsta greinMeira Pepsi nánast tryggt