Tómas Ellert: Selfossvirkjun

Hugmyndin um virkjun Ölfusár við Selfoss er ekki ný af nálinni.

Upp úr 1950 var möguleiki á Selfossvirkjun skoðaður ásamt fleiri virkjunarkostum á Hvítár/Ölfusársvæðinu. Þá var ráðgert að stífla Ölfusá neðst við Selfoss, þvert á núverandi staðsetningu kirkjugarðsins. Hugmyndin var sú að stöðvarhúsið ætti að vera staðsett við vestari bakkann, í sjálfri stíflunni. Uppistöðulón sem hefði myndast fyrir ofan stífluna hefði teygt sig upp að Laugardælaeyju og haft veruleg áhrif á grunnvatnsstöðu við Selfossbæ. Þessi framkvæmd hefði einnig þýtt mikla varnargarða og töluverð sjónræn áhrif. Selfossvirkjun var talin síður hagkvæm en aðrir virkjunarkostir á þeim tíma og því varð ekkert úr framkvæmdinni.

Af hverju er verið að skoða þennan virkjunarkost núna?
Vegna fyrirhugaðrar byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá norðan við Selfoss, þá blasir við að nýta megi það mannvirki einnig sem stíflugarð með flóðgáttum. Með samnýtingu og þátttöku Vegagerðarinnar við verkið, verður þessi virkjunarhugmynd hagkvæmari en margir aðrir kostir sem verið er að skoða á landinu. Á samgönguáætlun er ráðgert að hefja gerð nýrrar brúar árið 2013. Ef hugmyndin er ekki könnuð áður en ráðist yrði í byggingu brúarinnar, þá verður ekkert af virkjun.

Virkjunargerð
Hugmyndin er sú að Selfossvirkjun verði umhverfisvæn rennslisvirkjun. Með rennslisvirkjun er átt við virkjun þar sem lítil sem engin söfnun er á vatni, þ.e. ekkert uppistöðulón og raforkuvinnsla einskorðast þá eingöngu við rennsli árinnar hverju sinni. Til að framleiða rafmagn þarf aðeins tvennt til, rennsli og fallhæð. Meðalrennsli Ölfusár við Selfoss er um 380 m3/sek, þar af koma um 100m3/sek frá Soginu. Virkjunin nyti því mikils jafns rennslis og miðlunar frá Sogsvirkjunum. Fallhæð árinnar er fremur lág á þeim kafla sem fyrirhuguð virkjun er hugsuð og næst mest um 10 metrar. Túrbínur rennslisvirkjana eru mjög ólíkar þeim hverflum sem notaðir eru t.d. í Búrfellsvirkjunum og Kárahnjúkum. Í stað snigils og mörg hundruð blaða skrúfu sem snýst á miklum hraða, þá eru einungis örfá blöð á hverflum rennslisvirkjunar er minna helst á stórar skipsskrúfur sem snúast mjög hægt. Ekki er komin niðurstaða í það hvort að vatninu verði veitt í göng og nái þar með 10 metra fallhæð eða nýti einungis fallhæðina sem næst við stífluna. Að fara í gangnagerð hefur þann kost að efnið úr göngunum nýtist í vegagerðina og minnkar þar með umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar þar sem ekki þarf að fara um langan veg til að ná í efni, auk þess sem raforkuvinnsla verður töluvert meiri og þar með arðsemin af framkvæmdinni meiri.

Umhverfismál
Það er öllum ljóst sem koma að þessu verkefni að lífríki í og við ánna er viðkvæmt og Hvítá/Ölfusá er líklega hættulegasta flóðaá landsins. Tryggja þarf að seiði komist óhindruð til sjávar og að fiskur úr sjó komist á sínar heimaslóðir. Einnig þarf að leysa þau vandamál sem geta skapast af jakaburði, krapastíflum og aurburði. Til eru ýmsar lausnir á þessum málum og benda má á að víða hefur tekist vel til að leysa slíka hluti bæði hér á landi sem og víða erlendis. Á framkvæmdatíma má gera ráð fyrir töluverðum sjónrænum áhrifum og raski sem fylgir slíkum framkvæmdum. Markmiðið er að þegar virkjunin yrði fullbúin þá séu umhverfisáhrif í lágmarki.

Spennandi kostur
Ljóst er að fjölmörg tækifæri skapast í samfélaginu í námunda við virkjunina ef þessi framkvæmd verður að veruleika. Má þar þá helst nefna aukna atvinnusköpun, aukningu í ferðamennsku, fræðslu um lífríki árinnar og auknar tekjur í sveitarsjóð. Á framkvæmdatíma má búast við um 600 beinum og afleiddum störfum og þegar framkvæmdum lýkur þá verða til ný tækifæri fyrir iðnaðarstarfsemi á Suðurlandi. Starfrækja má fræðslusetur um lífríki Ölfusár í stöðvarhúsinu. Með opnun þess og tengingu við göngu- og reiðleiðir á svæðinu má búast við að starfsemin muni auka ferðamannastraum og opna á meiri nálægð fólks við lífríkið í ánni. Íbúum Sveitarfélagsins Árborgar er ljóst að staða sveitarsjóðs í dag er ekki góð. Með tekjum af orkusölu má lagfæra þá stöðu allverulega og búa í haginn til framtíðar. Á tímum sem þessum þarf kjark og þor til að kanna og nýta sér þá möguleika sem felast í náttúru og gæðum landsins okkar. Þá er gott að hafa í huga að þó verkefnin virðist vera óleysanleg við fyrstu sýn, þá er lausnin alltaf í sjónmáli.

Tómas Ellert Tómasson verkfræðingur, í stjórn Selfossveitna.

MYNDIR Í MYNDASAFNI TIL HÆGRI:

Mynd 1. Fyrsta tillaga að rennslisvirkjun upp úr 1950 – Rammaáætlun kostur nr.38.

Mynd 2. Tillaga að nýju brúarstæði yfir Ölfusá – Matsskýrsla Maí 2010.

Línurit. Skarvegin langtíma meðaldagsgildi rennslis í Ölfusá við Selfoss byggð á 57 ára mælingum-Flóð íslenskra vatnsfalla/Veðurstofa Íslands2009.

Attached files

Fyrri greinTRS hýsir Bláskógabyggð
Næsta greinÚtafakstur við Neðri-Dal