Það verður mikið um að vera á Selfossi dagana 29. – 31. júlí þegar Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Selfosssvæðinu. Gleðiefni að þessi stóra íþrótta- og fjölskylduhátíð geti loksins farið fram, ef svo má segja í þriðju tilraun en upphaflega átti Unglingalandsmótið að fara fram á Selfossi árið 2020.
Unglingalandsmótin um verslunarmannahelgina eru ein af stærstu íþrótta- og fjölskylduhátíðum hvers árs. Þar fer fram skemmtileg keppni í fjölda íþróttagreina ásamt fjölbreyttri skemmtidagskrá frá morgni til kvölds fyrir alla aldurshópa. Sveitarfélagið Árborg er stoltur samstarfsaðili hátíðarinnar með Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ), Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) og þeim fjölda íþróttafélaga og fyrirtækja sem taka í undirbúningi og framkvæmd.
Það er ekki sjálfgefið að setja upp svona stóra hátíð og er framlag starfsmanna sveitarfélagsins, UMFÍ, HSK og sjálfboðaliða ómetanlegt við undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmótsins. Fyrir það ber að þakka sérstaklega en ennþá vantar þó sjálfboðaliða til góðra verka sem um leið geta safnað pening fyrir sitt félag. Áhugasamir sem vilja taka þátt geta leitað beint til Guðrúnar Tryggvadóttur, verkefnastjóra í síma 894-4448 eða grenigrund@islandia.is.
Íþróttafélög í Sveitarfélaginu Árborg eru einnig að leita til iðkenda, foreldra og stuðningsaðila um aðstoð við framkvæmd mótsins og vil ég hvetja alla sem geta að taka jákvætt í þá beiðni. Markmiðið er að halda glæsilegt Unglingalandsmót svo þátttakendur, starfsmenn, sjálfboðaliðar og gestir eigi skemmtilegar minningar af mótinu.
Ég vil um leið hvetja fyrirtæki í Árborg til að taka þátt í hátíðinni með samfélaginu. Hvort sem það er með fjárhagslegum stuðningi, vörum eða þjónustu þá telur hvert framlag í að gera hátíðina sem veglegasta. Búist er við yfir tíu þúsund gestum á Selfoss þessa helgina í tengslum við Unglingalandsmótið og gott fyrir þjónustufyrirtæki á svæðinu að vera undirbúin þótt verslunarmannahelgin sé sannarlega talsvert stór fyrir.
Nánari upplýsingar um mótið má finna á www.ulm.is en ég vona að allir íbúar og gestir skemmti sér vel á Unglingalandsmótinu á Selfossi 2022.
Bragi Bjarnason
formaður bæjarráðs Árborgar