Hvað mig varðar er stutta svarið: Nei.
Allt frá því að byrjað var að ræða í bæjarstjórn Árborgar að leggja álag á útsvar hef ég verið því andsnúinn á eftirfarandi forsendum:
- Hlutverk sveitarfélags á, í mínum huga, að vera skjól fyrir íbúana og halda á álögum í lágmarki eftir fremsta megni. Það á ekki að bæta á fjárhagsleg vandræði fólks þegar illa árar í þjóðfélaginu. Sveitarfélagið á hins vegar að reyna að nýta góðæristíma til að bæta hag þess með því að rétta af hallarekstur og greiða niður skuldir.
- Í jafn slæmu efnahagsástandi og raun hefur verið á síðan í lok covid-19, þ.s. verðbólga fór yfir 10% og stýrivextir í tæp 10% (og eru þar enn) var og er í mínum huga útilokað að auka enn frekar á fjárhagslegar byrgðar íbúanna og þá sérstaklega þá hópa sem eru í viðkvæmri stöðu eins og ungt barnafólk, einstæða foreldra, ellilífeyrisþega og öryrkja.
- Fjárhagsvandi sveitarfélagsins var fyrst og fremst lausafjárvandi vegna hárra vaxta og verðbólgu en ekki það að sveitarfélagið væri gjaldþrota því það á eignir langt umfram skuldir.
- Þrátt fyrir slæma stöðu bæjarsjóðs þá hefði verið hægt að nýta sér bráðabirgðaheimild í sveitarstjórnarlögum sem sett var á í covid-19 og framlengd til ársloka 2025 sem kvað á um að sveitarfélög væru undanþegin skilyrði um að vera undir 150% í skuldahlutfalli. Það var m.a. gert vegna þess að 1/3 sveitarfélaga í landinu voru yfir þessu hlutfalli vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eftir covid-19.
Að ofangreindum ástæðum hefði ég því talið að það hefði átt að leggja ofuráherslu á að nýta sér það svigrúm að fullu, sem lögin buðu uppá, út árið 2025 að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150% sem hefði verið vel raunhæft þ.s. skuldahlutfallið var þó ekki hærra en tæp 165% fyrir A-hluta árið 2022. Samhliða því hefði átt að fara í samningaviðræður við ríkið og lánasjóð íslenskra sveitarfélaga um einhvers konar langtíma áætlun til að rétta af fjárhag sveitarfélagsins og koma honum í sjálfbæran farveg til framtíðar. Að leggja álag á útsvar hefði átt að vera algjört neyðarúrræði, allra síðasta útspilið en ekki eitt það fyrsta.
Að mála sig út í horn
Nú veit ég ekki hvað fór á milli meirihluta D-listans og fulltrúa ríkisins þegar þessi gjörningur var ákveðinn, því ekki voru fulltrúar minnihlutans viðstaddir neinar samningaviðræður, en að fulltrúar eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaganna hafi gert þetta að tillögu sinni er eitt en að meirihluti bæjarstjórnar skyldi samþykkja að fara þessa leið er annað.
Skýringin á því gæti verið sú að bæjarfulltrúar D-listans voru kannski búnir að mála sig út í horn af þeirri einföldu ástæðu að í upphafi kjörtímabilsins voru þeir svo upptekinn af því að reyna að kenna fyrri meirihluta um slæma stöðu bæjarsjóðs að þeir lýstu því margoft yfir í fjölmiðlum að sveitarfélagið væri gjaldþrota. Sú orðræða náði svo hámarki þegar blásið var til íbúafundar með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun til að koma enn betur til skila meintu gjaldþroti sveitarfélagsins. Það sem þessir ágætu bæjarfulltrúar virðast hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir að með þessari orðræðu eyðilögðu þeir líklega algjörlega samningsstöðu sína gagnvart fjármálamarkaðinum, því hver vill semja við gjaldþrota félag?
Ég get ekki varist þeirri hugsun að ef kjósendur hefðu gert sér grein fyrir því að þegar frambjóðendur D-listans sögðust ætla að „bjarga“ fjárhag sveitarfélagsins er ég ekki viss um að jafn margir hefðu kosið listann og raun bar vitni ef það hefði fylgt sögunni að björgunin yrði aðalega fólgin í því að vera með tvo bæjarstjóra á fullum launum, segja upp lægst launaða starfsfólkinu og leggja aukaskatt á alla skattgreiðendur í tvö ár, flokkurinn sem aldrei hækkar skatta að eigin sögn.
Burt með álagið
Í komandi fjárhagsáætlunarvinnu fyrir 2025 mun ég því halda áfram að berjast fyrir því að þetta aukaálag verði fellt út og vona ég sannarlega að það muni takast því þessi auka skattheimta kemur sér mjög illa við marga og er að mínu mati afar erfitt að réttlæta.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Svf. Árborg