Alveg frá því að ég hóf göngu mína í Háskóla Íslands, þar sem ég læri tómstunda- og félagsmálafræði, hefur fólk oft spurt mig í hverju námið felst.
Ég hef verið spurð að því hvort ég sé: að læra að binda blöðrur, í ferðamálafræði, því sama og félagsráðgjöf eða félagsfræði. Einnig er ætlast til að ég kunni alla heimsins leiki, vegna þess að ég er í þessu námi.
Þetta er ung fræðigrein hér á landi, en fer sannarlega vaxandi, enda eykst þörfin á fagmenntuðu fólki í þessari grein með hverju árinu sem líður.
Þetta nám veitir einstaklingum sérþekkingu til þess að starfa á sviði tómstunda- og félagsmála og kennd er þýðing og hlutverk tómstunda í samfélagi nútímans, sem og menningar og uppeldishlutverk tómstundastarfs. Námið er bæði fræðilegt og starfstengt , þar sem kennslugreinar eru til dæmis tómstunda- og félagsmálafræði, sálfræði, félagsfræði, siðfræði, stjórnun og viðburðastjórnun. Áhersla er lögð á að nemendur geti stjórnað, skipulagt, framkvæmt og metið félags- og tómstundastarf.
Faglega þekking tómstundafræðinga liggur einnig í því að skilja ákveðna hegðun og styrkja einstaklinga með því að leiðbeina þeim um samskipti og hvernig þeir geta lifað í sátt við umhverfi sitt.
Námið felst ekki í því að binda blöðrur eða að kunna alla leiki, þó við lærum vissulega nokkra þeirra, en er í raun og veru er það gjör ólíkt öllum öðrum námsgreinum. Þetta er virkilega skemmtilegt nám, samfélagið innan þess er lítið, sem gerir það að verkum að bæði nemendur og kennarar kynnast vel og vinna náið saman enda er svo margt í þessu námi sem við lærum með upplifuninni, í raun mikið meira heldur en í lestri fræðilegra bóka.
Sigurveig Mjöll Tómasdóttir,
nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.