Fyrsta skólastigið hjá börnunum okkar er alla jafna leikskólinn. Það er líka eitt mikilvægasta skólastigið því þarna fer fram mikil frummótun.
Börnin okkar læra í gegnum leik og starf með leiksskólakennurum og samnemendum og hið frábæra faglega starf sem unnið er í leikskólunum okkar verður seint að fullu þakkað.
Við í Áfram Árborg erum gífurlega stolt af því starfi sem unnið er á leikskólunum okkar. Skólarnir veita afbragðsgóða þjónustu og á því er engin vafi. Við viljum koma til móts við það frábæra starfsfólk sem er á leikskólunum með nýjum hætti.
Í leikskólum Hjallastefnunar hefur stytting vinnuvikunar gefið góða raun. Við viljum byrja á tilraunaverkefni með styttingu vinnuvikunnar á völdum leikskólum strax, á sama tíma viljum við koma til móts við þarfir foreldra í sveitarfélaginu sem margir hverjir sækja nám eða vinnu til Reykjavíkur og lengja opnunartíma leikskólanna aftur, þetta er hægt að gera án þess að auka álag á starfsfólk skólanna.
Þá viljum við líka skoða það gaumgæfilega að hafa sveigjanlegri sumarlokanir á skólunum. Í dag loka allir skólarnir í fimm vikur yfir hásumarið og hentar það alls ekki öllum þeim fjölskyldum sem skólarnir þjónusta, með sveigjanlegu kerfi þar sem til dæmis lokað er í þrjár vikur og svo velja foreldrar tvær til viðbótar á hinu hefðbundna sumarfrís tímabili er hægt að brúa bilið fyrir margar fjölskyldur og bjóða starfsfólki leikskólanna meiri sveigjanleika í frítöku.
Við í Áfram Árborg viljum gera gott leikskólastarf betra.
Viðar Arason, skipar 7. sæti hjá Áfram Árborg