Slökkvistarf, þar með talin reykköfun, er talin ein hættulegasta vinna sem er framkvæmd á friðartímum.
Í gær voru slökkvilðsmenn Brunavarna Árnessýslu boðaðir út í eitt stærsta verkefni sem þeir hafa átt við lengi. Alls voru 54 slökkviliðsmenn við slökkvistörf í gær þegar eldur kom upp í einni af byggingum SET á Selfossi, ásamt húsnæði 800Bars.
Eru þá ekki taldir upp starfmenn lögreglu, sjúkraflutninga og björgunarsveita sem voru á vettvangi. Af þessum slökkviliðsmönnum komu 40 frá starfsstöðvum Brunavarna Árnessýslu.
Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu eru hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Það þýðir að þeir vinna aðra vinnu daglega og bregðast því skjótt við, þegar neyðarkall kemur, en allir slökkviliðsmenn fá boð frá Neyðarlínu 1-1-2 í farsíma.
Atvinnurekendur þeirra slökkviliðsmanna, sem rjúka þurfa frá vinnu sinni fyrirvaralaust til að bjarga fólki úr neyð eða eignum, eiga miklar þakkir skildar fyrir þennan skilning sem þeir sýna á þessu framlagi manna til samfélagsins okkar.
Hjá Brunavörnum Árnessýslu starfa um 92 hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Erum við ávallt á vakt fyrir íbúa og gesti Árnessýslu og nágrennis.
Fyrir hönd starfsmanna BÁ,
Viðar Arason,
Formaður SBÁ