Nýlega tilkynnti ég ákvörðun mína um að sækjast eftir 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri sem fram fer í maí vegna alþingiskosninga í haust. Viðbrögðin hafa verið mikil og jákvæð og fyrir þau er ég afar þakklát.
Það er vissulega stór ákvörðun að óska eftir umboði til starfa á vettvangi Alþingis og það hafði satt að segja ekki hvarflað að mér fyrr en nú nýverið. Ég hef ekki tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi á landsvísu en hjartað slær til hægri og hefur alltaf gert. Ég er alin upp við sjálfsstæðisstefnuna með tilheyrandi frelsi, velferð og ábyrgð, allt kunnugleg stef í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er sú stefna sem höfðar til mín og fyrir slíkan málstað mun ég standa. Þegar betur var að gáð var ég tilbúin að gefa gefa kost á mér í landsmálapólitík og gefa mig alla í verkefnið enda tel ég mig hafa öðlast notadrjúga þekkingu og reynslu fyrir í störfum mínum undanfarin ár sem nýst getur vel fyrir Suðurkjördæmi nái ég árangri í prófkjörinu sem framundan er.
Fyrst skal auðvitað nefna að ég hef tekið þátt í að reka fjölskyldufyrirtækið okkar, Kjörís í Hveragerði, allan minn starfsferil á vinnumarkaði. Síðustu tíu ár hef ég síðan gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir heildarsamtök í atvinnulífinu og lífeyrissjóðakerfið. Þar eru snertifletir við fjöldamargt í atvinnulífinu og í gangverki þjóðfélagsins yfirleitt sem ég kynntist vel og gat haft áhrif á, eðli máls samkvæmt. Óneitanlega er spennandi að fá að vera hreyfiafl, að eiga sér hugsjónir og sjá þær raungerast. Það er einmitt sú reynsla sem ég veit að nýtist í störfum á Alþingi Íslendinga.
Ég er fædd og uppalin á Suðurlandi. Hér liggja mínar rætur og hér hef ég starfað alla tíð. Ég hef óbilandi trú á framtíðarmöguleikum Suðurkjördæmis og ég vil leggja mitt af mörkum til að styrkja innviði þess á alla vegu. Við erum í fremstu röð og eigum að vera hvort heldur litið er til sjávarútvegs, landbúnaðar og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu eða margskonar iðnaðar.
Síðustu ár höfum við orðið vitni að mikilli fjölgun íbúa í kjördæminu sem kallar á öfluga og trausta innviði samfélagsins okkar. Brýnt er að samgöngur séu góðar. Mennta- og skólamál verða sömuleiðis að svara kalli tímans. Heilbrigðisþjónustan verður að vera öflug til til að sinna þörfum okkar íbúanna.
Atvinnumálin eru mér sérlega hugleikin enda er atvinnulífið sjálfur grunnurinn. Við þurfum fjölbreyttari atvinnusköpun til að fjölga störfum í kjördæminu.
Við getum hvert og eitt okkar haft áhrif á framtíðina. Það ætla ég að gera.
Ég hlakka til að hitta ykkur sem flest á förnum vegi næstu vikurnar.
Eflum Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir í 1. sæti!