Á-listinn, sem er listi íbúa og óháður flokkapólitík, er nú að bjóða fram lista til sveitarstjórnarkosninga í fjórða sinn í Rangárþingi ytra. Listinn fékk þrjá fulltrúa kjörna í sveitarstjórn í síðustu kosningum, starfar því í minnihluta sveitarstjórnar, og er ég að klára núverandi kjörtímabil sem oddviti listans. Ég er afar þakklát fyrir það traust sem ég fékk til þess á kjörtímabilinu.
Það styttist í kosningar og því rétt að líta aðeins yfir farinn veg hvað Á-listinn hefur áorkað á yfirstandandi kjörtímabili. Það er krefjandi að vera í minnihluta og oftar en ekki eru tillögur minnihluta felldar, en sem betur fer ekki alltaf. Fulltrúar Á-lista hafa unnið ötullega eftir stefnuskrá listans og er ég afar stolt af okkar tillögum sem samþykktar hafa verið í sveitarstjórn.
Á þessu kjörtímabili hefur Á-listinn m.a.:
- Fest í sessi og hækkað heimgreiðslur fyrir foreldra sem kjósa að hafa börn sín heima
eftir að fæðingarorlofi lýkur í allt að eitt ár. - Komið á gjaldfrjálsum skólamáltíðum fyrir grunnskólabörn.
- Lækkað fasteignaskatt af íbúðar- og atvinnuhúsnæði.
- Komið af stað rafrænum skráningum á lausum lóðum til að laða að nýja íbúa og fyrirtæki.
- Látið fullgera móttökuáætlun nýrra íbúa.
- Komið í gang vinnu við hönnun á nýju skólahúsnæði á Hellu
- Komið af stað vinnu við gerð umhverfis- og auðlindastefnu.
Allt eru þetta mál sem gera sveitarfélagið okkar að aðlaðandi, fjölskylduvænu sveitarfélagi sem fólki þykir eftirsóknarvert til búsetu, eins og sjá má á úthlutuðum fjölda íbúðalóða síðustu misseri. Þessu ber að fagna, en betur má ef duga skal!
Önnur mál sem Á-listinn hefur lagt fram, en ekki hlotið hljómgrunn sjálfstæðismanna eru m.a.:
- Frístundastyrkir til barna- og ungmenna.
- Gerð heilsustíga.
- Endurskoðun opnunartíma félagsmiðstöðvar.
- Útfærsla á frístundaakstri barna.
- Opnari stjórnsýsla með beinum útsendingum sveitarstjórnarfunda.
Okkur fulltrúum Á-lista þykir það skjóta skökku við að sjálfstæðismenn hafni ítrekað tillögum um mál af þessu tagi sem snúa beint að velferð barna, forvarnarmálum, opnari og betri stjórnsýslu, heilsueflingu íbúa og almennt bættri þjónustu við íbúa og þá sér í lagi í dreifbýli.
Það er líka leiðinlegt að þurfa að segja að fjölmörg mál sem lögð hafa verið fram af Á-lista og fengist samþykkt samhljóða, hefur sveitarstjóri, sem jafnframt er kjörinn fulltrúi, ekki fylgt eftir. Slíkt er eingöngu hægt að túlka sem svo að við samþykkt þeirra hafi hugur sjálfstæðismanna ekki fylgt máli.
Vissulega hefur sveitarstjórn unnið saman að mörgum góðum málum, sem D-listi Sjálfstæðisflokksins eignar sér einum núna rétt fyrir kosningar. Það er hvorki rétt né sanngjarnt og sem betur fer þá höfum við staðið saman að öllum góðum framfaramálum fyrir sveitarfélagið eins og sveitarstjórn ber að gera.
Að sitja í sveitarstjórn á líðandi kjörtímabili er búið að vera gefandi en jafnframt krefjandi. Það er mitt mat að kjörtímabilið hafi einkennst af stefnu- og aðgerðarleysi hjá meirihluta sjálfstæðismanna. Ítrekað hefur þurft að ýta á eftir að mál séu sett á dagskrá funda, innsend erindi hafa gleymst og upplýsingaflæði til kjörinna fulltrúa í minnihluta hefur oft á tíðum verið slæmt. Mín tilfinning er sú að málum sem þarfnast umræðu í sveitarstjórn sé vísað á lokaða fundi nefnda eða jafnvel sett inn á fundi undir trúnaði. Að mínu mati er þetta vinnulag sem einkennist af stefnuleysi og óreiðu og því þarf að breyta. Breytingum fylgja tækifæri!
Á-listinn samanstendur af öflugum hópi einstaklinga sem hafa það sameiginlega markmið að Rangárþing ytra verði framúrskarandi og eftirsóknarvert sveitarfélag á allan hátt. Við leggjum mikið upp úr opinni og faglegri stjórnsýslu, auknu íbúalýðræði og að hlusta á og þjónusta íbúa eins og best verður á kosið. Með þessu kröftuga fólki hlakka ég til að takast á við áskoranir komandi kjörtímabils fáum við til þess umboð.
Ég vona að íbúar sveitarfélagsins sýni mér og félögum mínum það traust að setja X við Á í komandi kosningum. Tækifærin eru til staðar, það er okkar allra að grípa þau.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Skipar 2. sæti Á-lista í Rangárþingi ytra