Sumarið er handan við hornið og er hver vorboðinn á fætur öðrum búinn að láta sjá sig. Lóan er kominn ásamt Sandvíkurtjaldinum og götuhreinsun stendur yfir í öllu sveitarfélaginu.
Einn af vorboðunum góðu er menningar- og bæjarhátíðin Vor í Árborg. Hátíðin er árlegur viðburður, en skipulagning og undirbúningur er á höndum sveitarfélagsins. Stærsti hluti dagskrárinnar eru viðburðir frá íbúum og félagasamtökum í Árborg ásamt fjölskylduleiknum Gaman Saman. Líkt og áður er Vor í Árborg haldið í öllu sveitarfélaginu frá sumardeginum fyrsta, 24. apríl til og með sunnudeginum 27. apríl nk.
Mig langar að hvetja alla íbúa til að njóta hátíðarinnar og þá sérstaklega fjölskyldur, enda nóg um að vera. Viðburðir verða um allt samfélagið okkar og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt verður að njóta samverunar bæði utan- og innandyra. Fjöldi sýninga eru í boði ásamt opnum húsum, tónleikum og hreyfingu. Veðurspáin er góð og hvet ég alla til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar á heimasíðu sveitarfélagsins.
Sveinn Ægir Birgisson,
formaður bæjarráðs Árborgar