„Það truflaðasta sem ég hef gert“

Tónlistarhátíðin Roskilde Festival, sem haldin er í Hróarskeldu í Danmörku, hófst á laugardaginn, en aðal dagskrá hátíðarinnar hefst í dag og stendur fram á laugardag.

Vignir Egill Vigfússon er á staðnum fyrir hönd Sunnlenska og lýsir hátíðinni eins og hún kemur fyrir augu í gegnum sunnlensk sólgleraugu.

Þrátt fyrir að aðal dagskráin byrji í dag hafa tónleikar verið í boði fyrir þá tugi þúsunda gesta sem mættir eru á svæðið, en gert er ráð fyrir að fleiri en hundrað þúsund gestir verði á hátíðinni. Íslenska hljómsveitin The Vintage Caravan, skipuð þeim Óskari Loga, Alexander Erni og Stefáni Ara, sem rekur ættir sínar á Selfoss, spilaði á hátíðinni á sunnudaginn.

Sunnlenska ræddi við söngvara og gítarleikara The Vintage Caravan, Óskar Loga, í Hróarskeldu rétt áður en hann fór á svið í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, í þetta skiptið fyrir starfsfólk hátíðarinnar. „Þetta var það truflaðasta sem ég hef gert,“ sagði Óskar um tónleikana á sunnudaginn.

Tónleikagestirnir tóku hljómsveitinni gríðarlega vel. Móttökurnar voru í raun betri en hljómsveitarmeðlimir höfðu gert sér vonir um. „Fólk hoppaði allan tímann og var að missa sig þarna,“ sagði Óskar sem vildi meina að þetta hafi verið besti áhorfendahópur sem þeir höfðu nokkurn tímann haft. Sennilega með fullri virðingu fyrir þeim sem sáu hljómsveitina í Miðbæjargarðinum á Selfossi síðasta sumar.

Strákarnir hafa fengið verðskuldaða athygli eftir tónleikana og rétt áður en blaðamaður Sunnlenska náði tali af Óskari höfðu þeir félagar verið stoppaðir af fólki á tjaldsvæðinu sem sá tónleikana og hrósaði frammistöðu þeirra í hástert. „Fólk er bara gríðarlega sátt og ánægt og við erum ennþá ánægðari með það.“

Öðruvísi hátíð en hann bjóst við
Þetta hafði lengi verið þeirra draumur, að komast í hóp íslenskra hljómsveita sem höfðu spilað á Roskilde Festival. „Það var alltaf svolítið fjarstætt að fá að spila hérna og þess vegna þurfti maður að klípa sig nokkrum sinnum.“

Óskar segist hafa búist við öðruvísi hátíðin en þeirri sem hann hefur upplifað í Hróarskeldu síðustu daga. „Þetta er miklu friðsælla en ég bjóst við og alveg frábær fílingur,“ sagði Óskar sem hafði notið sín með í sólinni með Tuborg þá daga sem hann var ekki að spila.

Strákarnir í The Vintage Caravan þurfa hinsvegar að yfirgefa svæðið í dag í þann mund sem aðal dagskrá hátíðarinnar hefst. Ástæðan er að framundan eru æfingar fyrir tónlistarhátíðina Eistnaflug á Neskaupsstað þar sem hljómsveitin mun spila plötuna Lifun sem Trúbrot gaf út árið 1971. „Þetta er uppáhalds platan mín og við munum spila hana með Magnús Kjartanssyni sem auðvitað var í Trúbrot,“ sagði Óskar spenntur.

Hvað Roskilde Festival varðar tók Óskar vel í þá hugmynd blaðamanns að hljómsveitin myndi einn daginn spila á hinu fræga appelsínugula sviði sem mun m.a. hýsa Pharrell Williams, Muse, Florence and the Machine, og Sir Paul McCartney í vikunni.

Daglegir pistlar frá hátíðinni verða hér á síðunni næstu daga.

Fyrri greinSvavar Knútur og Kristjana í Eyrarbakkakirkju
Næsta greinHeiðrún Kristmunds í Hamar