Karitas Harpa Davíðsdóttir frá Selfossi stóð uppi sem sigurvegari í The Voice Ísland en úrslitaþátturinn var í beinni útsendingu á Sjónvarpi Símans í kvöld.
„Mér líður mjög vel, þetta eru mjög miklar tilfinningar. Kvöldið var æðislegt og markmið mitt í kvöld var að fá að syngja bæði lögin mín. Ég var alveg búin að ákveða það að ég myndi ekki vinna, ég var bara svo glöð að fá að syngja seinna lagið. Svo voru úrslitin… ég er bara ennþá svolítið að átta mig á þessu,“ sagði Karitas Harpa í samtali við sunnlenska.is á Kaffi Selfoss í kvöld þar sem hún fékk hlýjar móttökur frá aðdáendum sínum, vinum og vandamönnum.
Fjórir keppendur voru í úrslitunum í kvöld og Karitas komst í úrslitaeinvígið gegn Arnari Dór. Seinna lag Karitasar í kvöld var My Love með Sia, sem hún negldi algjörlega.
„Ég var mjög ánægð með kvöldið í kvöld. Ég var svolítið stressuð á bakvið en ég var ákveðin í að koma mínu til skila. Ég skil mjög sátt við þetta en ég bjóst alls ekki við því að komast í úrslitaeinvígið. Það var samt markmiðið alla vikuna því mig langaði til þess að syngja bæði lögin. Seinna lagið var allt annað en ég hef verið að sýna áður. Ég er búin að vera hress og hafa gaman en þarna fékk ég að vera berskjölduð og fékk að sýna mig sem söngkonu.“
Keppnin í The Voice Ísland hófst í síðla sumars í fyrra og Karitas segir að þetta hafi verið langt ferðalag, en uppskeran hafi verið mikil.
„Áheyrnarprufurnar voru í ágúst þannig að þetta er búið að vera rosalega langt ferli. Ég verð að viðurkenna að í upphafi hafði ég ekki hugsað svo langt að ég gæti unnið keppnina. Það væri geðveikt að komast í beinu útsendingarnar en svo er allt annað búið að vera bónus. Þetta er búið að vera svo mikill skóli og svo mikil upplifun að ég kem út frá þessu miklu ríkari heldur en ég nokkurn tímann bjóst við.“
Og hvað tekur við hjá sigurvegaranum?
„Ég er allavega á leið til Krítar,“ segir Karitas og hlær. „Svo er planið að nýta þessa stúdíótíma og mig langar að gefa út lag og mig langar jafnvel að gefa út annað af lögunum sem ég söng í kvöld. Þannig að það er bara vonandi að ég fái að gera eitthvað skemmtilegt fljótlega og það er eins gott að fólk sé ekki komið með leið á mér,“ sagði Karitas Harpa létt að lokum.