Stokkseyringurinn Þórir Geir Guðmundsson kom sá og sigraði með glæsibrag í söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands í íþróttahúsinu Iðu í kvöld.
Þórir Geir heillaði kvenþjóðina – og áhorfendur reyndar alla – upp úr skónum þegar hann flutti lagið Ég fer ekki neitt sem Sverrir Bergmann gerði vinsælt.
Í öðru sæti varð Áshreppingurinn Sóley Sævarsdóttir og hún fékk einnig verðlaun fyrir bestu sviðsframkomuna. Sóley söng Donna Summer-lagið Hot Stuff. Þriðja varð Heiðrún Huld Jónsdóttir frá Hvolsvelli sem söng Queen-lagið Another One Bites the Dust.
Iða var smekkfull og stemmningin frábær í húsinu en að sögn Arnars Helga Magnússonar, framkvæmdastjóra keppninnar, var slegið áhorfendamet í kvöld en vel á níundahundrað gesta var í salnum. Þema keppninnar var Frozen og er það mál manna að umgjörðin og keppnin sjálf hafi aldrei verið glæsilegri. Kynnar voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Sveppi krull og á meðan dómnefndin hugsaði sinn gang flutti hljómsveitin Dikta magnaðan örkonsert.