Sunnlenskir tónlistarmenn eiga þrjú lög af tíu í úrslitum Maggalagakeppni Rásar 2. Keppnin er haldin í tilefni þess að þjóðargersemin Magnús Eiríksson varð sjötugur á dögunum.
Keppnin er tökulagakeppni til heiðurs Magnúsi en tugir laga bárust í keppnina. Nú hefur innanhúsdómnefnd valið tíu lög til að fara í úrslit og kosningu hjá almenningi.
Hljómsveitirnar Myrká, Stuðlabandið og söngkonan Guðný Lára Gunnarsdóttir eiga lög í úrslitum. Myrká með Garúnu, Stuðlabandið með Ég elska þig enn og Guðný Lára með Veginn heim.
Almenningur getur kosið á milli laganna tíu á heimasíðu Ríkisútvarpsins og hefur hún helmings vægi við dómnefnd, sem Magnús Eiríksson situr sjálfur í. Tilkynnt verður um úrslit föstudaginn 25. september.
Flytjandi sigurlagsins fær að launum glæsilega vinninga frá Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, Kaffi Rósenberg og eintök af nýja Magga Eiríks safninu frá Senu.