Allir viðburðir 800Bars halda sér

Þegar 800Bar á Selfossi brann sl. miðvikudag hafði Eiður Birgisson bókað skemmtanir á staðnum langt fram í tímann.

800Bar verður ekki í rekstri næstu mánuðina en góðu fréttirnar eru þær að allar bókanir staðarins haldast óbreyttar og verða þeir viðburðir haldnir í nágrenni við Selfoss.

Agent.is hefur yfirtekið allar bókanir 800Bars og mun halda viðburðunum úti.

Fyrsti viðburðurinn verður á morgun, laugardag, og hefur hann verið færður yfir á Kríuna í Flóahreppi. Þar munu þeir félagar Friðrik Dór, Haffi Haff og DJ Óli Geir halda uppi stemmningunni.

„Þetta er frábær lausn fyrir skemmtanalífið á Suðurlandi en viðburðirnir verða ekki alltaf á sama stað þannig að ég hvet fólk til að fylgjast vel með á Facebook,“ sagði Eiður Birgisson á 800Bar í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinSelfyssingar styrkja sig enn frekar
Næsta greinSagðist vera með mann í gíslingu