Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðinnar senda frá sér plötuna „Allt er eitthvað“ þann 10. október næstkomandi.
Platan mun m.a. innihalda lagið Hamingjan er hér sem hefur tröllriðið öldum ljósvakans í sumar og næsta lag sem fer í spilun en það er titillag plötunnar.
Jónas og Ritvélarnar fagna útgáfu plötunnar með tónleikum í Tjarnarbíói þann 12. október.
Allt er eitthvað er önnur sólóplata Jónasar sem áður hefur gefið út plötuna Þar sem malbikið svífur mun ég dansa. Sú plata vakti athygli fyrir vandaðar lagasmíðar og textagerð og voru lögin Ofskynjunarkonan og Baráttusöngur uppreisnarklansins á skítadreifurunum mikið spiluð í útvarpi.
Nú er hægt að nálgast titillag nýju plötunnar, Allt er eitthvað, frítt á Tónlist.is í takmarkaðan tíma.