Nú eru tvær vikur í nærstu stóru tónleikaveislu sumarsins en framundan er Laugarvatn Music Festival í Íþróttahúsinu á Laugarvatni daganna 14. og 15. júlí. Tónleikarnir eru innann dyra þannig að veðurspáin er alveg glimrandi fín.
Meðal flytjenda á Laugarvatn Music Festival eru meðal annarra Helgi Björnsson, Júníus Meyvant, Valdimar, Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar, Daði Freyr, Hildur, Tilbury, Ylja, Snorri Helga og Karitas Harpa svo eitthvað sé upp talið.
Jónas Sigurðsson er meðal flytjenda á hátíðinni og hann er spenntur fyrir helginni. „Það er meiriháttar gaman að komast útí íslenska sumarkvöldið og syngja í umkringdur fallegri náttúru fyrir fólk sem komið er til að hlusta og njóta,“ segir Jónas.
„Við erum búinn að vera á tónleikaferðalagi um landið og stemmningin er búin að vera frábær og okkur hlakkar til að koma á Laugarvatn. Ég hef verið að fylgjast með undirbúningi skipuleggjenda um nokkurt skeið og ég held að þetta hafi alla burði til að verða meiriháttar viðbót inn í góða og fallega flóru hátíða eins og Drangey og Bræðslunnar. Þannig að okkur hlakkar mikið til.“
Bessi Theodórsson er einn skipuleggjenda hátíðarinnar og hann segir að einungis 800 miðar séu í boði á hátíðina. „Við erum með flest ástsælasta tónlistarfólk landsins hjá okkur og þetta verður frábært. Nú þarf fólk bara að fara að kíkja á tix.is og ganga frá lausum endum,“ segir Bessi. „Hátíðin er innandyra þannig að veður skiptir engu máli í þessu hjá okkur, það eru laus herbergi á Héraðskólanum og Hótel Eddu á mjög sanngjörnu verði þannig að hér er allt til alls til að eiga yndislega helgi. Það er bara þannig.“
Tónleikarnir fara fram innandyra bæði kvöldin í íþróttahúsinu á Laugarvatni en húsið fellur einkar vel að tónlistarflutningi þar sem stór hluti þess er viðarklæddur að innan.Tónleikahátíðin er því ekki útihátíð heldur tónleikaveisla og eingöngu er hægt að kaupa miða sem gildir fyrir bæði kvöldin.