Bjartmar Guðlaugsson, eitt rómaðasta söngvaskáld Íslendinga, heldur tónleika á 800Bar á Selfossi á laugardagskvöld. Bjartmar er spenntur fyrir kvöldinu.
„Þarna verð ég einn með gítarinn og fer yfir ferilinn. Það verður allt þetta helsta á prógramminu, bæði gamalt og nýtt og á milli laga segi ég sögurnar á bakvið lögin þannig að þetta verður bara létt og skemmtileg stemmning,“ sagði Bjartmar í samtali við sunnlenska.is.
Tónleikarnir eru framlag 800Bars til tónlistarhátíðarinnar Kótelettunnar sem haldin er á Selfossi um helgina. Frítt er inn á tónleikana sem hefjast kl. 22 og standa til miðnættis. Að þeim loknum stígur lagvissasti knattspyrnumaður norsku úrvalsdeildarinnar, Guðmundur Þórarinsson, á svið og spilar fram á nótt.
Undanfarin misseri hefur Bjartmar spilað töluvert einn síns liðs á milli þess sem hljómsveitin Bergrisarnir kemur fram með honum en Bjartmar er einmitt að fara í hljóðver á næstunni til að taka upp nýja hljómplötu með Bergrisunum.
„Já, síðustu tvö ár hef ég mest verið að koma fram einn,“ segir Bjartmar og bætir við að hann sé spenntur fyrir kvöldinu. „Það er alltaf gott að spila fyrir Árnesinga, ég þekki það vel eftir að ég spilaði í hljómsveitinni Glitbrá á Hvolsvelli með Helga Hermannssyni. Ég spilaði á trommur í því bandi og við spiluðum um allt Suðurland. Þetta var árið 1977, að mig minnir – fyrir Krist, svo því sé haldið til haga,“ sagði Bjartmar léttur að lokum.