Alvöru flöskuball í Hvolnum

Á laugardagskvöld verður talið í mikinn dansleik í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Tilefnið er árleg kjötsúpuhátíð sem fer fram um helgina.

Hljómsveitin Stuðlabandið, sem er Sunnlendingum að góðu kunn, verður í forgrunni og sérlegur gestur verður trymbillinn Óskar Þormarsson sem er uppalinn á Hvolsvelli og hefur verið að gera það gott í tónlist undanfarið. Að auki mun hljómsveitin Einnar Nætur Gaman hefja leik og hita upp fyrir Stuðlabandið. Í ENG eru ungir og hæfileikaríkir piltar frá Hvolsvelli og Vík í Mýrdal.

Húsið opnar klukkan 23:00 og miðaverð er einungis 2.200 íslenskar krónur sem er gjöf en ekki gjald í ljósi þess að enginn bar verður á staðnum og þarf því hver að sjá um sig sjálfur. Og vert er að vekja athygli á því að 20. ára aldurstakmark verður á dansleikinn.

Sumsé, stórdansleikur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Eru allir hvattir til að skottast í Rangárþing eystra um helgina. Þar verður menningin, fjörið og lífið.

Fyrri greinVerið að skoða heilsársopnun
Næsta greinGengið að Brúsastaðarafstöðinni