Ölvisholt Brugghús og Rauða húsið á Eyrarbakka hafa gengið til samstarfs um að taka á móti hópum í bjórkynningar.
Rauða húsið hefur um margra ára skeið boðið gestum upp á metnaðarfulla matargerð og Ölvisholt Brugghús hefur verið leiðandi í þróun bjórmenningar á Íslandi. Það er því vel við hæfi að þessi sunnlensku fyrirtæki sameini krafta sína í kynningu á því besta sem héraðið hefur uppá að bjóða.
Frá árinu 2007 hefur Ölvisholt tekið á móti hópum í brugghúsið til að smakka bjór og fræðast um framleiðslu þessa merka drykkjar. Mikil ásókn hefur verið í þessar kynningar og færri komist að en vildu og því var ákveðið að leita eftir samstarfi við Rauða Húsið.
Kynningar þessar eru settar upp sem fyrirlestur með léttum brag. Farið er yfir helstu vörutegundir brugghússins í máli og myndum og þær smakkaðar meðan á kynningu stendur. Einnig er farið yfir framleiðsluferlið, innihaldsefnin og aðferðir við bruggun mismunandi bjóra. Auk þess er gestum leiðbeint um hvaða matur passar með hverjum bjór.