Sælan, myndbandanefnd Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands, réðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur við gerð nýs tónlistarmyndbands sem gefið var út í vikunni.
Sælan fékk StopWaitGo þríeykið til liðs við sig ásamt Ingó Veðurguð og útkoman er hreint út sagt frábær óður til paradísarinnar Selfoss. Draumalandið nefnist afurðin og má sjá myndbandið hér neðst í fréttinni.
Elvar Guðberg Eiríksson, einn Sæludrengjanna, sagði í samtali við sunnlenska.is að allt hafi verið lagt undir við gerð lagsins og myndbandsins en verkefnið hefur verið um það bil tíu mánuði í vinnslu.
„Við tókum ákvörðun fyrir rúmu ári að gera lag í samvinnu við StopWaitGo. Við heyrðum í Ingó og hann var meira en til í að taka þátt með okkur í laginu. Fljótlega kom upp sú hugmynd að lagið ætti að vekja athygli og bæta félagslífið í skólanum og við fylgdum þeirri hugmynd og byggðum einnig lagið á því að dásama glæsilega heimabæinn okkar, Selfoss,“ segir Elvar.
Ef þið ætlið bara að hlusta á eitt lag í dag, þá er það hér að neðan. Nú er bara að hækka í hátölurnum. Góða helgi og gleðilegt sumar!