Daði Freyr og Júlí Heiðar í Söngvakeppninni

Sunnlendingar eiga að venju sína fulltrúa í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins en lögin tólf sem taka þátt í forkeppninni í ár voru kynnt í kvöld.

Áshreppingurinn Daði Freyr Pétursson flytur eigið lag, Hvað með það?, en þetta er í fyrsta skipti sem hann tekur þátt í keppninni. Daði leggur stund á hljóðtækninám í Berlín þessa stundina en hann hefur verið hluti af sunnlensku hljómsveitunum Lesula, Retrobot og komið einn fram sem Mixophrygian.

Júlí Heiðar Halldórsson frá Þorlákshöfn tekur þátt annað árið í röð en hann flytur lagið Heim til þín ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur. Júlí Heiðar hefur komið víða við í dansi og söng á undanförnum árum en hann nemur leiklist við Listaháskóla Íslands.

Þriðja lagið í keppninni með sunnlenskri tengingu er lagið Til mín, eftir Rangæinginn Hólmfríði Ósk Samúelsdóttur. Eiginmaður hennar, Arnar Jónsson, sem ættaður er frá Selfossi, syngur lagið ásamt Rakel Pálsdóttur. Öll hafa þau tekið þátt í Söngvakeppninni áður en Arnar flutti til að mynda lagið Þúsund stjörnur í undankeppninni árið 2010.

Keppnin hefst 25. febrúar og úrslitin verða í Laugardalshöll 11. mars. Eurovision-keppnin verður svo í Úkraínu í maí.

Hægt er að hlusta á lögin tólf sem taka þátt í keppninni á vef Söngvakeppninnar.


Júlí Heiðar Halldórsson. Mynd: Eggert Þór Jónsson / Sævar J – RÚV


Arnar Jónsson. Mynd: Eggert Þór Jónsson / Sævar J – RÚV

Fyrri greinÞórsarar sneru taflinu við eftir hlé
Næsta greinFramlengdur frestur fyrir framboð