Í kvöld fór fram fjórða og síðasta undankvöld Músíktilrauna 2013. Átta hljómsveitir komust í úrslit en í kvöld var að auki tilkynnt að dómnefnd hefði nýtt sér rétt sinn að velja þrjár hljómsveitir til viðbótar í úrslit.
Ein þessara sveita er hljómsveitin Aragrúi frá Selfossi sem spilaði á þriðja undankvöldinu í gærkvöldi. Það verða því tvær hljómsveitir frá Selfossi í úrslitum því Glundroði var áður komin í úrslit.
Hljómsveitina Aragrúa skipa söngkonan Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, Tómas Guðmundsson gítar, Markús Harðarson trommur, Hlynur Daði Rúnarsson bassi og Margrét Rún Símonardóttir fiðla.
Svo gripið sé niður í lýsingu hljómsveitarinnar á sjálfri sér þá var Aragrúi stofnuð í ágúst 2011. Hljómsveitarmeðlimir hafa síðan verið að leika sér með allskonar hljóð, eins og úúú og aaaa og meeee. Aragrúi spilar rokkblandaða krúttpoppblómanýbylgju með smá lopapeysufíling inni á milli.
Úrslitakvöldið er á laugardaginn í Silfurbergi í Hörpu. Dagskráin hefst kl.17 og verður einnig útvarpað á Rás 2.
Á heimasíðunni, www.musiktilraunir.is er hægt að nálgast upplýsingar um viðburðinn, verðlaunin og hlusta á hljóðdæmi frá öllum hljómsveitum.
Miðasala á úrslitin er á harpa.is og midi.is en miðaverð er 1500 kr.