Drepstokkur, lista- og menningarhátíð ungs fólks á Suðurlandi, hefst í Pakkhúsinu, ungmennahúsi Árborgar í kvöld. Þetta er annað árið sem hátíðin fer fram og er margt í boði.
Á neðri hæð Pakkhússins hefur verið sett upp æfinga- og upptökustúdíó og lista- og hönnunarrými með vinnuborðum og saumavélum. Þetta árið mun Drepstokkur leggja mesta áherslu á fatahönnun, útvarp og tónlist. Yfirskrift hátíðarinnar þetta árið er „Ungmennin eru komin til að vera”.
Hátíðin hefst í kvöld með fatahönnunarnámskeiði auk þess sem útvarpshópur hefur undirbúning. Formleg setning er síðan kl. 18 á morgun þegar nýja rýmið á neðri hæðinni verður formlega tekið í notkun.
Á föstudagskvöld munu útvarpsmennirnir Frosti og Máni af X-inu deila reynslu sinni og í kjölfarið opna þeir útvarp 89,9 með ungum sunnlendingum. Stöðin verður í gangi alla helgina. Þá er einnig spilakvöld og hljómsveitin Varúlfur mun loka kvöldinu.
Eftir hádegi á laugardag verður fatamarkaður í Pakkhúsinu frá verslunum í Reykjavík og á laugardagskvöld verða sýndar stuttmyndir og í kjölfarið er kvikmyndamaraþon.
Um miðjan dag á sunnudag eru úrslit í fatahönnunarkeppni og á sunnudagskvöld eru tónleikar með Metropolice og Bloodgroup.