Tónleikaröðin á kaffihúsinu Hendur í Höfn í Þorlákshöfn heldur áfram og nú er komið að hljómsveitinni Dusty Miller sem mun stíga á stokk í kvöld kl. 20.
Að þessu tilefni ætlar Dagný á Hendur í höfn bjóða upp á tveir fyrir einn af öllum drykkjum á milli 18-20 og er fólk því hvatt til að mæta tímanlega, næla í góð sæti og koma sér vel fyrir áður en strákarnir í Dusty Miller hefja leik.
Hljómsveitin Dusty Miller er tiltölulega ný á nálinni en þrátt fyrir ungan aldur sveitarinnar hefur hún verið afkastamikil, bæði á sviði og í hljóðveri og er von á þeirra fyrstu plötu í desember.
Þeir sem skipa hljómsveitina eru Elvar Örn Friðriksson sem sér um söng og píanó, Kári Árnason á bassa, Tómas Jónsson á hljóðgervla og hljómborð, Aron Ingi Ingvarsson á trommur og Rögnvaldur Borgþórsson á gítar.
Á Facebooksíðu Dusty Miller má heyra nokkur af lögunum sem munu prýða fyrstu plötu þeirra.
Aðgangseyrir er 1500 kr. og er nauðsynlegt að koma með reiðufé.
Að venju mun Dagný töfra fram kræsingar fyrir þá sem það vilja og verður hún með sérstakan matseðil með léttum réttum þetta kvöld sem enginn verður svikinn af.