Fimm sunnlenskar hljómsveitir taka þátt í Músiktilraunum í ár en fyrsta undankvöldið verður haldið þann 30. mars í Norðurljósasal Hörpu.
Á fyrsta undankvöldinu kemur fram progg-rokk sveitin The Roulette frá Selfossi. Sveitina skipa þeir Teitur Magnússon, gítar og synthesizer, Hafþór Agnar Unnarsson, söngur og synthesizer, Skúli Gíslason, trommur og raddir og Þorsteinn Ólason, bassi, synthesizer og raddir.
Rokkhljómsveitin Lucy in Blue frá Hveragerði kemur fram á öðru undankvöldinu þann 31. mars. Sveitina skipa þeir Steinþór Bjarni Gíslason, gítar og söngur, Arnaldur Ingi Jónsson, hljómborð, orgel og bakraddir, Matthías Hlífar Pálsson, bassi og Kolbeinn Þórsson, trommur.
Rokksveitin Alkul frá Selfossi stígur á stokk á þriðja undankvöldinu, þann 1. apríl. Sveitina skipa Njáll Laugdal Árnason, trommur, Egill Smári Snorrason, gítar, Þórir Gauti Pálsson, gítar og Árni Hoffritz Þorsteinsson, söngur og bassi.
Síðustu tvö sunnlensku böndin koma fram á fjórða og síðasta undankvöldinu, þann 2. apríl. Það eru hljómsveitirnar Raw og The Tension.
Raw, sem er meðal annars frá Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Selfossi, spilar fjölbreytilega og á köflum dramatíska tónlist. Sveitina skipa þeir Sigurjón Óli Arndal Erlingsson, söngur, gítar og bassi, Elí Kristberg Hilmarsson, gítar, Alexander Örn Ingason, trommur og Hörður Alexander Eggertsson, píanó og bassi.
Stúlknasveitin The Tension er indie-rokkhljómsveit frá Selfossi en hana skipa þær Álfrún Björt Agnarsdóttir, gítar, Rannveig Óladóttir ,trommur, Inga Kristrún Hjartardóttir, söngur, Jessý Jónsdóttir, gítar og bassi, Sesselja Sólveig Birgisdóttir, þverflauta og Þorgerður Helgadóttir, píanó.
Undankvöldin eru sem fyrr segir fjögur, frá 30. mars til 2. apríl en úrslitin fara fram í Hörpu laugardaginn 5. apríl kl. 17.