Lesula, dúett Daða Freys Péturssonar og Jökuls Loga Arnarssonar, var að senda frá sér nýtt lag á Spotify, og nefnist það "Up In a Tree".
„Lagið fjallar um apa sem er súr og svekktur er hann fylgist með hinum öpunum skemmta sér, klifrandi uppi í tré í massagóðum fíling og sippandi í sig banönum. Honum finnst þetta hálf asnalegt og týpiskt fyrir apa en þegar hann ákveður að brúka kjaft fær hann kærleiksríkt mótsvar með boði um að vera með þeim í gleðskapnum. Þarna sér hann hvernig myrkrið sem virtist allt í kringum hann kom frá honum sjálfum, en ekki hinum öpunum. Hann klifrar upp í tré með þeim og skemmtir sér betur en hann hafði nokkurn tímann gert,“ útskýrir Jökull í einkaviðtali við sunnlenska.is.
Þetta er þriðja lagið sem þeir félagar gefa út undir nafninu Lesula, en áður höfðu þeir gefið út tvö lög sem MC Daði og MC Jökull á árunum 2010 og 2011.
Nú er bara að finna Lesula á Spotify og hlusta á ævintýri apans uppi í tré.