Það verður sannkölluð hippastemmning í Hvítahúsinu á Selfossi laugardagskvöldið 9. október en þá verður hið vinsæla Hippaball þar sem Pops og Karma leiða saman hesta sína.
Þetta er í fyrsta skipti sem Pops spilar á Selfossi en hljómsveitin er lifandi goðsögn frá sjöunda áratugnum með ofurstjörnur innanborðs, sjálfa Keflavíkurbítlana Gunnar Þórðarson og Magnús Kjartansson auk Óttar Felix Haukssonar, Jóns Ólafs, Birgis Hrafns og Ólafs Sigurðssonar. Pops hefur leikið fyrir hina svokölluðu 69 kynslóð á dansleikjum undanfarin ár við góðan orðstýr.
Þetta er í þriðja sinn sem Hvítahúsið er með hippaball og er það mikil tilhlökkun hjá okkur að sjá þessi snilldar bönd á sviði sama kvöldið. Við hvetjum fólk til þess að klæða sig upp eins og hippar. Það verður 30 ára aldurstakmark á ballið en ætlunin er að bjóða upp á tvo dansleiki fram að jólum þar sem aldurstakmarkið er svo hátt,“ sagði Einar Björnsson, veitingamaður í Hvítahúsinu í samtali við sunnlenska.is.
Hægt er að sjá frekari upplýsingar á Facebook síðu Hvítahússins, en forsala byrjar í Barón Kjarnanum í dag.