Miðvikudaginn 20. apríl verður fyrsta uppistandskeppnin á Selfossi haldin á 800Bar og sunnlenskir grínistar hafa ennþá möguleika á að skrá sig.
Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar, segir viðtökurnar við þessari nýung virkilega góðar en nú þegar hafa átta grínarar skráð sig. Áhugasamir hafa möguleika til kl. 15 á sunnudaginn á að skrá sig en keppnin fer fram á miðvikudagskvöld.
„Það hefur aldrei verið haldin uppistandskeppni eins og þessi á Selfossi og það er kominn tími til að keyra þessa hefð í gang því þetta er fáránlega skemmtilegt,“ segir Eiður. „Ef þú ert fyndni gaurinn í vinahópnum þá er þetta þinn dagur. Menn þurfa ekkert að vera búnir að undirbúa sig í þrjú ár og vera í stresskasti. Þetta verður bara afslappað og skemmtilegt,“ segir Eiður og bætir við að stórglæsileg verðlaun verði fyrir efstu þrjú sætin.
Skráning er með Facebook-maili á Áttahundruð Bar eða með tölvupósti á 800bar@800bar.is.
Meistari Nilli mun opna kvöldið á gríni en hann er einn af þremur dómurum kvöldsins. DJ Sölvi/DJ Blastah klára svo kvöldið með látum og gestir geta unnið hvítvíns flöskuborð á Facebook-síðu viðburðarins.