Gerðust túristar í einn dag og gerðu tónlistarmyndband

Þórir Geir og Gyða Margrét syngja eitt af þeim tólf lögum sem keppa í Söngvakeppninni í ár um að verða framlag Íslands í Eurovision voru að gefa út myndband við lagið sitt, sem heitir Brosa.

Myndbandið var tekið upp á Suðurlandi og spila Gullfoss, Geysir og Kerið meðal annars stór hlutverk í því.

„Hugmyndin var að gerast túristar í okkar eigin landi í einn dag og heimsækja nokkrar af fallegustu náttúruperlum Suðurlands. Við vöknuðum eldsnemma til þess að ná birtunni, fórum á næstu bensínstöð og fengum okkur pylsu með öllu í morgunmat og lögðum svo á stað. Það var fáránlega kalt þennan morgun en maður gleymdi því fljótt því það var svo gaman hjá okkur yfir daginn,“ sögðu Þórir Geir og Gyða Margrét í samtali við sunnlenska.is.

„Það var ótrúlega skemmtileg upplifun að taka upp myndband í svona mikilli fegurð og við erum virkilega ánægð með útkomuna. Við vonum svo auðvitað að myndbandið fái fólk til að brosa sem er eimmitt boðskapur lagsins.“

Mikil spenna er í hópnum sem mun flyta lagið Brosa á fyrra undankvöldinu þann 10. febrúar næstkomandi. Með Þóri og Gyðu á sviðinu verða Skúli Gíslason á trommur, Arnar Jónsson á bassa, Bergrós Halla Gunnarsdóttir á kassagítar og Pétur Örn Guðmundsson sem syngur bakraddir.

Höfundar lags og texta eru þeir Guðmundur Þórarinsson og Fannar Freyr Magnússon en Bassi Ólafsson sá um hljóðblöndun í Stúdíó Tónverk.

Myndbandið við lagið má sjá hér fyrir neðan.

Fyrri greinToppliðin höfðu betur
Næsta greinGuðný kosin í nefnd á vegum FIA