Glæsilegt opnunarkvöld á Fróni

Það var mikið um dýrðir þegar skemmtistaðurinn Frón á Selfossi opnaði á laugardagskvöldið. Hápunktur kvöldsins var þegar GusGus steig á sviðið eftir miðnætti.

Það var mikil eftirvænting í húsinu á meðan staðurinn fylltist af prúðbúnum veislugestum á laugardagskvöldið en Frón skartar 500 fermetrum af glæsilegri og spennandi hönnun.

Eins og nafnið gefur til kynna er hönnun staðarins innblásin af náttúru og menningu Íslands. Eigendur Fróns, Árni Steinarsson og Anna Einarsdóttir áttu veg og vanda að hönnuninni.

A+ Groove Band hóf leik með léttri lounge stemmingu á meðan gestir gæddu sér á veitingum og skoðuðu staðinn og Atli plötusnúður byggði svo upp stemmingu fyrir aðalnúmer kvöldsins.

Allt ætlaði síðan um koll að keyra þegar GusGus steig á svið fljótlega uppúr miðnætti í öllu sínu veldi og í hljóð- & ljósakerfi sem hefði sómt sér vel í Laugardalshöll.​

Frón verður opið fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld og að sögn Árna eru spennandi uppákomur framundan.

Myndir frá opnunarkvöldinu munu birtast í Sunnlenska fréttablaðinu í þessari viku

Fyrri grein„Góður áfangi“
Næsta greinOlíu stolið í Þorlákshöfn