Sunnlendingar eiga fjögur lög af tólf í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2018. Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson er höfundur tveggja laganna.
Selfyssingarnir Guðmundur Þórarinsson og Fannar Freyr Magnússon komu tveimur lögum inn í keppnina þetta árið. Það eru lögin Litir, sem Guðmundur flytur og Brosa, sem Gyða Margrét Kristjánsdóttir og Þórir Geir Guðmundsson flytja. Fannar Freyr og Guðmundur eru höfundar lags og texta í báðum lögunum.
Júlí Heiðar Halldórsson frá Þorlákshöfn hefur áður látið til sín taka í Söngvakeppninni en hann eru höfundur lagsins Í stormi sem Dagur Sigurðarson syngur. Júlí Heiðar samdi lagið en textann samdi hann í félagi við Þórunni Ernu Clausen.
Fjórði sunnlenski keppandinn í Söngvakeppninni er Karitas Harpa frá Selfossi en hún er ein af söngvurunum í Fókus hópnum sem mætir til leiks með lagið Aldrei gefast upp. Lagið er eftir Michael Down, Primoz Poglajen, Rósu Björg Ómarsdóttur og Sigurjón Örn Böðvarsson en textinn efitr Jonas Gladnikoff og Þórunni Ernu Clausen.
Tólf lög voru valin inn í keppnina og munu sex þeirra komast í úrslit. Undankeppnirnar verða 10. og 17. febrúar en sjálft úrslitakvöldið í Laugardalshöllinni þann 3. mars.
Hægt er að hlusta á öll lögin og kynnast keppendum á vef Söngvakeppninnar.