Tónlistarmaðurinn Hreimur Örn Heimisson heldur tónleika í Sögusetrinu á Hvolsvelli í kvöld kl. 21 í tilefni af útgáfu fyrstu sólóplötu sinnar, Eftir langa bið.
Þetta er einlæg og melódísk plata og allt eru þetta lög eftir Hreim sjálfan. Platan hefur verið lengi í smíðum, eða síðan í september 2004, og þess vega fékk hún þennan titil.
Lögin „Agndofa“ og „Þegar þú ert hér“ hafa þegar hljómað á öldum ljósvakans og vöktu mikla athygli fyrir einlægar útsetningar og skemmtilega laga og extasmíð. Lagið „Góða nótt“ semur Hreimur eftir texta afa síns, Vilhjálms S.V. Sigurjóns en sá texti er líklegast saminn um 1970.
Árni Þór Guðjónsson, Róbert Dan Bergmundsson, Ívar Þormarsson og Pálmi Sigurhjartarson verða Hreimi til halds og trausts á tónleikunum og það er nokkuð ljóst að hann mun eflaust leika eitthvað af sínum bestu lögum í bland við nýju plötuna sína.
Tónleikarnir hefjast kl. 21 en húsið opnar kl. 20. Platan verður á frábæru tilboði og aðgangseyrir er 1.500 kr. Hreimur mun svo að sjálfsögðu árita plötu sína að tónleikum loknum.