Tilnefndingar til Íslensku tónlistarverðlaunanna voru kynntar í gær og fengu Sunnlendingar nokkrar tilnefningar.
Plata Kiriyama Family, Waiting for…, er tilnefnd sem plata ársins í flokki poppplatna ásamt Andra Ólafssyni og félögum í Moses Hightower með plötuna Fjallaloft. Titillag plötu Moses Hightower er tilnefnt sem popplag ársins og hljómsveitin er einnig tilnefnd sem lagahöfundur ársins.
Daði Freyr & Gagnamagnið eru sömuleiðis tilnefnd í flokknum popplag ársins fyrir Hvað með það, sem Daði og félagar slógu í gegn með í Söngvakeppninni síðasta vetur.
Þá er Kammerkór Suðurlands tilnefndur fyrir plötu ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar en kórinn gaf út plötuna Kom skapari á árinu 2017.
Íslensku tónlistarverðlaunin verða haldin hátíðleg í Hörpu miðvikudaginn 14. mars og verða sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.