Árlegt Inghóls upprifjunarpartý verður haldið í Hvítahúsinu á Selfossi í kvöld.
Það er sem fyrr athafnamaðurinn Einar Bárðarson, fyrrum skemmtanastjóri Inghóls, sem stendur fyrir veislunni í samvinnu við Hvítahúsið og Þóri Jóhannsson. Í ár verður gerð sú breyting á að allir sem verða fertugir á árinu fá frítt inn enda stórt ár hjá þeim. Annars er 30 ára aldurstakmark í ár og miðaverð litlar 1.500,- krónur.
Í ár verður sérstaklega vel lagt í veisluna en auk diskótekaranna Einars „Dj. Marvin“ Bárðarsonar og Þóris „Tj the Dj“ Jóhannssonar þá verða sérstakir gestir stórsveitin Vinir vors og blóma. Á barnum verður mikið af drykkjum sem voru í tísku á þessum tíma s.s. Hot shot og Sambucca svo ekki sé minnst á Captain í Coke.
Einar Bárðar hóf feril sinn sem skemmtanastjóri í Inghól í desember 1992. Einar stýrði skemmtanahaldi á Inghól til ársins 1996 en það sumar tók hann að sér umboðsmennsku fyrir SSSÓL og síðar Skítamóral.
Margar stærstu hljómsveitir landsins skemmtu í Inghól á þessu tímabili og nægir þar að nefna Sálina hans Jóns míns, Todmobile, SSSóL, Pláhnetuna, Stjórnina, Vini Vors og Blóma, Greifana og fleiri og fleiri.