Jónas Sigurðsson og hljómsveit hans, Ritvélar framtíðarinnar, verða í útlegð vikuna 22.-28. júlí þegar þau fara hringinn í kringum landið og spila á sjö stöðum á sjö dögum. Þau munu gera tvö stopp á leið sinni um Suðurland.
Miðvikudaginn 27. júlí verða þau í Gunnarshólma í Austur-Landeyjum, þangað sem Jónas á ættir sínar að rekja, og einnig í Félagsheimilinu á Flúðum fimmtudagskvöldið fyrir verslunarmannahelgina þar sem The Dirty Deal Blues band kemur einnig fram.
Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar eru annáluð fyrir lifandi flutning á lögum og textum Jónasar en hann hefur gefið út þrjár plötur og hafa fjölmörg lög af þeim hlotið verðskuldaða athygli og mörg ratað hátt á vinsældarlista landsins.
Á tónleikunum verður hægt að kaupa nýútkomna plötu sem inniheldur öll vinsælustu lög Jónasar ásamt lifandi upptökum og áður óútgefnu efni.
Fyrir skömmu sendu Jónas og Ritvélarnar frá sér nýtt myndband sem tekið var upp á tónleikaröð hljómsveitarinnar í fyrrahaust á Græna Hattinum Akureyri, Frystiklefanum Rifi og Café Rosenberg í Reykjavík. Myndbandið má sjá hér að neðan.