Jónas Sigurðsson, Ritvélar framtíðarinnar og Lúðrasveit Ísafjarðar slógu botninn í tónleikahaldið á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði í kvöld.
Áður en Jónas steig á svið á þessu síðara kvöldi hátíðarinnar höfðu m.a. Abbababb, Sniglabandið, Prinspóló, Samaris og Ojba Rasta komið fram.
Jónas tók nokkur af sínum bestu lögum ásamt Ritvélum framtíðarinnar en undir lokin steig Lúðrasveit Ísafjarðar á stokk með Jónasi og Ritvélunum og ætlaði þakið að rifna af KNH skemmunni á Ísafirði þegar talið var í Baráttusöng uppreisnarklansins á skítadreifaranum og Hamingjan er hér.
Sunnlendingar áttu fleiri fulltrúa á tónleikunum því að þær Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Anna Margrét Káradóttir úr Lúðrasveit Þorlákshafnar spiluðu undir með Jónasi og fjórði Ölfusingurinn á sviðinu var Steinunn Jónsdóttir frá Þorlákshöfn sem leikur með Lúðrasveit Ísafjarðar.
Hægt var að fylgjast með herlegheitunum í beinni útsendingu á Rás2 og á heimasíðu hátíðarinnar.