Jón Jósep Snæbjörnsson og Hrafnkell Pálmarsson, einnig þekktir sem Jónsi og Keli í hljómsveitinni Í svörtum fötum, spila á fyrstu tónleikum af fimm í tónleikaröðinni Innsýn á Kaffi Selfossi í kvöld.
Á tónleikunum spila strákarnir órafmagnaðar útgáfur af mörgum af vinsælustu lögum hljómsveitar sinnar og segja þess á milli sögurnar á bakvið lögin og sögur frá sínum ferli í poppinu.
Þetta er í fyrsta skipti sem félagarnir halda tónleika sem þessa. „Við erum því afar spenntir fyrir kvöldinu,“ segir Jónsi í samtali við sunnlenska.is. „Við Hrafnkell höfum verið að hittast og fara yfir lögin sem okkur langar til að spila. Þau koma úr ýmsum áttum ferils okkar,“ segir Jónsi jafnframt og bætir við að það hafi verið erfiðast að velja á milli laga.
Á tónleikum sem þessum getur myndast mikil nánd milli gesta og flytjenda. Gestirnir sitja nálægt flytjendunum og flytjendurnir opna sig meira en venjulega fyrir gesti.
„Tónleikagestir munu fá að kynnast okkur Kela nokkuð náið þar sem við munum segja frá tilurð laga, þeim lögum sem höfðu áhrif á okkur meðan við sömdum efnið okkar og við munum líka gefa litla innsýn í það hvernig lögin hljómuðu í byrjun,“ segir Jónsi. Einnig fá gestir að heyra sögur frá starfi þeirra sem popp tónlistarmenn á Íslandi.
Tónleikarnir byrja kl. 21:30 í kvöld, fimmtudagskvöld, á Kaffi Selfossi, en húsið opnar nokkuð fyrr. Miðaverð er 2.000 kr.- og fylgir glaðningur í Gulli með hverjum miða. Nánari upplýsingar eru á Facebook-síða tónleikaraðarnir – Innsýn.