Sunnlenska hljómsveitin Kiriyama Family á vinsælasta lag landsins þessa vikuna en lagið Weekends fór á topp Vinsældalista Rásar 2 þegar listinn var kynntur í gær.
Í öðru sætinu er lagið Fékkst ekki nóg með Múgsefjun. Í þriðja sæti listans er lagið sem var á toppnum í síðustu viku, Stutt skref, með hljómsveitinni Moses Hightower.
Weekends hefur verið tíu vikur á listanum og fór í 2. sætið fyrir þremur vikum. Eftir stutt fall niður listann viku síðar fór lagið aftur upp í 2. sætið í síðustu viku og situr nú á toppnum.
Þetta er annað sunnlenska lagið sem nær toppsætinu á þessu ári en Jónas Sigurðsson og Magnús Þór Sigmundsson sátu samfleytt í þrjár vikur á toppnum í maímánuði með lagið Ef ég gæti hugsana minna.
Íslenska þjóðin tekur þátt í vali Vinsældalista Rásar 2. Sighvatur Jónsson kynnir nýjan lista á laugardögum milli klukkan 16 og 18. Listinn er endurfluttur á sunnudagskvöldum frá klukkan 22 til miðnættis.