Kiryama Family spilar á Ford-keppninni

Sunnlenska hljómsveitin Kiriyama Family sigraði í hljómsveitakeppni sem fyrirsætuskrifstofan Eskimo og Benzin Music/Sýrland stóðu fyrir í tilefni af Ford-keppninni sem haldin verður annað kvöld.

Um þrjátíu hljómsveitir tóku þátt og stóð Kiriyama Family uppi sem sigurvegari með lagið Sneaky Boots. Lagið er líklega fyrsta íslenska lagið sem var gefið út á þessu ári því þeir félagar gáfu lagið út á netinu eftir miðnætti á gamlárskvöld.

Hljómsveitina skipa Víðir Björnsson, Karl Magnús Bjarnarson, Guðmundur Geir Jónsson, Jóhann Vignir Vilbergsson og Bassi Ólafsson.

„Við erum mjög sáttir við þetta. Það er gaman að senda út fyrsta lagið sitt og vinna þessa keppni í kjölfarið,“ sagði Víðir Björnsson í samtali við sunnlenska.is en hljómsveitin mun spila fyrir framan fjögur hundruð boðsgesti á Ford-keppninni í Listasafni Reykjavíkur annað kvöld ásamt hljómsveitunum Feldberg og Sykri.

Kiryama Family fékk í verðlaun einn dag í hljóðveri þar sem Benzin-bræðurnir Daði og Börkur Hrafn Birgissynir stjórnuðu upptökum. Einnig verður gert myndband við lagið sem verður leikstýrt af Ásgrími Má.

Lagið Sneaky Boots

Fyrri greinÓveðursútkall á Eyrarbakka
Næsta greinÖryggi íbúa og gesta verulega ógnað