Föstudaginn 18. september verður Soroptimistaklúbburinn á Suðurlandi með konukvöld í félagsheimili Karlakórs Selfoss að Eyravegi 67 og hefst það kl. 20:00.
Þarna verður margt áhugavert í boði. Sérstakur gestur verður Valgerður H. Bjarnadóttir sem er konan á bak við verkefnið Vanadís – rætur okkar, draumar og auður. Hún ætlar að halda erindi um um það hvernig við getum nýtt goðsagnir, þjóðsögur og ævintýri, í bland við drauma, til að rekja og endurvefa þræðina sem saman mynda líf okkar og tilveru.
Ungt tónlistafólk kemur og skemmtir, einnig verður tískusýning,happdrætti o.fl.
Léttar veitingar verða í boði. Aðgangseyrir á þessa skemmtun er 3.000 kr
Þetta er í annað skiptið sem klúbburinn heldur svona skemmtikvöld. Fyrra kvöldið var fyrir ári síðan, þá komust færri konur að en vildu vegna stærðar húsnæðisins. Þess vegna var brugðið á það ráð núna að fá stærra húsnæði svo fleiri konur eigi kost á því að koma.
Soroptimistar eru alþjóðasamtök fyrir vinnandi konur í öllum störfum. Markmið Soroptimista er stuðla að heimsmynd þar sem konur og stúlkur ná í sameiningu fram því besta sem völ er á, bæði sem einstaklingar og sem hópur, og þar sem þær geta látið drauma sína rætast og til jafns við aðra skapað sterk og friðsöm samfélög um allan heim.