Ljótu hálfvitarnir á Flúðum

Um Verslunarmannahelgina ætla Ljótu hálfvitarnir að hreiðra um sig á Flúðum eins og þeir hafa stundum gert áður, við allnokkurn fögnuð nærstadda.

Þar munu þeir halda tvenna tónleika í Félagsheimili Hrunamanna, föstudaginn 2. og laugardaginn 3. ágúst.

Fjórða plata Hálfvitanna kom út um miðjan júní og efni af henni verður hryggjarstykkið í prógramminu, að viðbættum slögurum af þeim fyrri. Sem er viðeigandi – því þar er ort um ýmislegt sem einkennir ferðahelgina miklu: Gagnkvæman áhuga fólks hvert á öðru, dýr sem þvælast fyrir á þjóðvegum landsins og bjór. Já og skáta. Og bjór.

Tónleikarnir hefjast kl. 21 en félagsheimilið verður opnað um klukkustund áður.

Fyrri greinÞrjátíu tindar í ágúst
Næsta greinHulda Hlín sýnir í bókasafninu